145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[23:17]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það sem er ólíkt þessari aðgerð og því að Varnarmálastofnun var lögð niður á sínum tíma er það að verkefnum Varnarmálastofnunar var skipt á milli þriggja aðila. Hér er verið að tala um að sameina á einum stað krafta þeirra sem vinna að þróunaraðstoð.

Það er hins vegar eitt sem mig langar sérstaklega til að spyrja hv. þingmann um. Svo er mál með vexti að sá sem hér stendur hefur ekki orðið þeirrar ánægju aðnjótandi að verða ráðherra enn þá, en ég hef tekið eftir því að í ræðum nokkurra fyrrverandi ráðherra hér í dag hafa komið fram þær skoðanir að það auki ógagnsæi að færa verkefni úr stofnun inn í ráðuneyti og að það muni jafnvel hafa áhrif á meðferð fjármuna. Ég ætla þess vegna að spyrja hv. þingmann, sem er fyrrverandi hæstv. ráðherra: Er það einhvers konar ævisöguleg reynsla sem brýst hér fram í ræðum þessara ágætu þingmanna? Telur hv. þingmaður það? Er það reynsla þessara þingmanna, og þar með talið hv. þingmanns, að ráðuneytin séu eins konar svarthol þar sem ógagnsæi ríki og meðferð fjármuna sé ábótavant? Þetta langar mig til að vita.

Mig langar líka aðeins til að stinga á öðru. Ég man það eins og gerst hefði í gær að í kosningabaráttunni veturinn 2013 var ég staddur í Siglingamálastofnun í Kópavogi. Þar var nú ekki þessi ánægja með yfirvofandi sameiningu, sem hv. þingmaður lýsti hér áðan, og það sveif ekki vinsamlegur andi yfir vötnunum þar. Menn voru satt að segja alveg brjálaðir yfir því hvernig var verið að fara með þetta og ég held að það sé reyndar ekki komið að fullu fram hvernig sú sameining hefur lukkast eða hvort hún hefur lukkast.

Aðalatriðið í fyrirspurn minni er hvort hv. þingmaður telji að með færslu (Forseti hringir.) verkefnanna inn í ráðuneytið verði meðferð fjármuna verri og ógagnsæið meira.