145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[23:19]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er ekki endilega viss um ógagnsæið og það allt saman. Það er hins vegar stutt og laggott þannig að menn hafa ekki verið að taka framkvæmdastofnanir inn í ráðuneyti.

Eins og ég lýsti hér áðan, með sameiningu Vegagerðar og Siglingastofnunar, og uppstokkun á þessum samgöngustofnunum, þá var það að mig minnir stutt skýrslu og stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar um að nauðsynlegt væri að skilja á milli framkvæmdahluta og stjórnsýsluhluta. Það er þess vegna sem starfsmannahópurinn splittaðist upp á Siglingastofnun, ég man ekki í hvaða hlutfalli en í hærra hlutfalli en hjá Vegagerðinni þó að Vegagerðin hafi verið miklu stærri stofnun; Flugmálastjórn svo inni í stjórnsýslustofnun. Ég fullyrði að það er miklu betri aðferð að hafa þetta þannig og framkvæmdastofnun alveg sér.

Hvað varðar kosningaheimsókn hv. þingmanns í Siglingastofnun á sínum tíma: Já, vafalaust hefur hann heyrt í ýmsum starfsmönnum þar sem voru frekar órólegir yfir sameiningunni. Margir af þeim nýttu sér biðlaunarétt, gerðu það. En ég held að það hafi líka verið byggt á misskilningi. Það voru töluvert margir starfsmenn Siglingastofnunar sem vildu ekki sameinast Vegagerðinni heldur Landhelgisgæslunni og búa til stofnun hafs og stranda ef ég man rétt. Þar voru nokkrir aðilar með það sjónarmið og mér kemur það ekkert á óvart að einhverjir starfsmenn hafi rætt það við frambjóðanda, sem var á biðilsbuxunum við að afla sér atkvæða í kosningum, að gera það, það kemur ekki á óvart. En ég hika ekki við að halda því fram að eftir tvö til þrjú ár af þessum rekstri séu allir sammála um að þetta sé miklu betra form en það var og stjórnsýslulega engin spurning.