145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[23:22]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nei, ég ætla starfsmönnum utanríkisráðuneytisins það ekki. En ég treysti hæstv. utanríkisráðherra ekki fullkomlega, það verður bara að segjast eins og er, hvað þetta varðar. Ég hef nefnilega ekki heyrt nein rök fyrir því verki sem hér er verið að vinna. Þess vegna dreg ég þá ályktun, eftir þá herfilegu útreið sem utanríkisráðuneytið fékk fyrir tveimur árum í fjárlagagerð, að meðal annars sé verið að skapa þarna hagræði og að það geti leitt til þess, kannski eftir að hæstv. ráðherra er hættur og næsti kominn inn, að einhverjir starfsmenn hætti og ekki verði bætt við heldur verði verkefni færð til hinna. En peningurinn verður áfram inni.

Hv. þingmaður ræðir um 15 ára reynslu sína við fjárlög ríkisins. Ef ég man rétt var hann í umhverfisráðuneytinu, ekki satt? Hefði mönnum þar einhvern tíma dottið í hug að taka Umhverfisstofnun eða Skipulagsstofnun og færa inn í (Forseti hringir.) ráðuneytið? (Gripið fram í.) Þá fer kannski að koma skýring. Ef hv. þingmaður svarar þessu játandi, þá verð ég bara að segja eins og er að ég verð enn meira undrandi á þessum hugsunargangi framsóknarmanna.