145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[23:24]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf):

Virðulegi forseti. Það hefur komið fram í máli sumra hv. þingmanna að þeim þykir nóg um þessa umræðu og hvað hún hefur staðið lengi. Ég vil ekki taka undir það. Þvert á móti vil ég þakka fyrir hvað þessi umræða hefur dregist á langinn. Þetta er góð umræða og hún dýpkar eftir því sem á líður. Það sem meira er, og kemur ekki alltaf fyrir, þá hefur hún verið að dýpka eftir því sem líður á kvöldið.

Sá þingmaður sem hér stendur er ekki síst þakklátur fyrir hvað umræðan hefur dregist vegna þess að ég var ekki viðstaddur hér síðustu daga síðustu viku, gat ekki komið, og er því að flytja mína fyrstu ræðu um málið nú í kvöld. Vissulega er dálítið liðið á kvöldið eftir langan þingdag en ég hef tímann fyrir mér til að koma frá mér hugsuninni.

Ég sat í utanríkismálanefnd á síðasta ári þegar sama frumvarp kom fram og fékk mjög mikla og góða umfjöllun í nefndinni og ágætar umræður í þinginu. Fyrstu viðbrögðin, þegar ég var að undirbúa mig fyrir ræðu nú í kvöld, þar sem frumvarpið kemur fram óbreytt aftur á þessu þingi, voru að kíkja á ræður mínar frá því í vor. Ekki var laust við að mig langaði hreinlega að flytja þær aftur en vil nú ekki þreyta þingið með því heldur vísa áhugasömum á þrælgóðar ræður mínar frá því í vor sem allar eru aðgengilegar á neti Alþingis.

Ég fagna þessari umræðu líka vegna þess að mér finnst skipta máli að horfa á málið, sem er flókið, frá mörgum hliðum. Ég þakka hv. þm. Kristjáni L. Möller fyrir þrælgóða ræðu hér rétt áðan um stofnanalega þætti þessara tillagna, sem hefur dýpkað minn skilning og um leið gert óþarfan hluta af því sem ég vildi ræða hér í dag.

Ég held að það sé mikilvægt að horfa til þess að Þróunarsamvinnustofnun er fyrirmyndarstofnun. Þróunarsamvinnustofnun hefur fengið bestu meðmæli fyrir sína starfsemi, hvernig hún hefur þróað sína starfsemi og gert skilvirkari á hinum síðustu árum. Það orð hefur hún ekki fengið á sig úr einni átt eða fáum heldur bæði í greiningum Ríkisendurskoðunar, í greiningum alþjóðlegra aðila, í greiningum DAC, stofnunar OECD, og sömuleiðis hef ég ekki heyrt betur, bæði í umræðum nú en ekki síður í vor, en að þingmenn og hæstv. ráðherrar, bæði núverandi og fyrrverandi, hafi komið í röðum til að bera lof á starfsemina og faglegan grunn starfsemi Þróunarsamvinnustofnunar. Hann hlýtur að skipta máli, ekki bara vegna þess að við viljum að stofnanir okkar séu faglegar í öllum sínum störfum, fari vel með fjármagn og sinni verkefnum sínum af kostgæfni, heldur ekki síst vegna þess að verkefni Þróunarsamvinnustofnunar eru dálítið sér á parti í þeim verkefnum sem opinberar stofnanir á Íslandi hafa með höndum.

Þróunarsamvinna er mjög merkilegt fyrirbæri og skiptir miklu máli í heiminum. Þróunarsamvinna hófst þegar nýlendutímabilinu lauk og hefur að miklu leyti beinst að Afríku og fyrrverandi nýlendulöndum þar. Framan af fólst mikið af þróunaraðstoð í beinum peningagjöfum, styrkjum o.s.frv. en reynslan sýndi að hún þurfti að vera markvissari. Þróunarsamvinna hefur í raun verið að þróast áratugum saman, ekki síst hin síðustu ár þegar iðnríkin, sem hafa verið að styrkja og standa í þróunarsamvinnu, hafa verið að finna skilvirkari leiðir til að koma fjármagninu þangað sem það gerir gagn, koma því í verkefni sem gera gagn og klárast, koma því í að vera ekki neyðaraðstoð eða tímabundin aðstoð til að lina þjáningar heldur til stofnanauppbyggingar, til að styrkja samfélögin í hinum fátækari löndum, styrkja stofnanir og samfélög til sjálfsbjargar. Þær tölur sem við höfum séð, sérstaklega frá Afríku síðustu árin, sýna að þar hefur heilmikið gerst í mörgum löndum, þar hafa mörg lönd sett heimsmet í hagvexti og hafa í efnahagslegu og stofnanalegu tilliti tekið stór stökk fram á við. Það er ekki síst vegna þess að þróunarsamvinna hefur þróast yfir í að vera virk stofnanauppbygging. Það er mikilvægt að taka til þess að Þróunarsamvinnustofnun hefur fylgt þessari alþjóðlegu þróun mjög vel eftir og þykir til fyrirmyndar í starfi sínu, í því hvað hún hefur unnið góð verk með sínum takmörkuðu fjármunum í alþjóðlegu tilliti, enda Ísland lítið land.

Ég fagna þessari umræðu, fagna því að komast að til að halda mína fyrstu ræðu. Ekki síður til að ræða um þróunarsamvinnu í aðeins stærra tilliti en bara út frá þessari tillögu. Þessi tillaga fjallar fyrst og fremst um utanumhaldið á þróunarsamvinnu og þróunarsamvinnutillögum Íslendinga. Mér finnst mikilvægt að kafa aðeins ofan í verkefnið og stöðuna. Vitnað hefur verið til úttekta fyrri ára og meðal annars spurninga sem DAC hefur velt upp, hvort þörf sé á breytingum í íslenskri stjórnsýslu og utanumhaldi á þróunarsamvinnu. Þær spurningar hafa gjarnan verið settar fram í samhengi við ætlaða stóraukningu í þróunarsamvinnu Íslendinga. Það er þyngra en tárum taki að ræða núna stofnanabreytingu sem, eins og hv. þm. Kristján L. Möller benti ágætlega á, gæti hreinlega leitt til mikils kostnaðarauka sem yrði til innan lands vegna biðlauna, vegna kerfislægs kostnaðar sem verður til á Íslandi, á meðan við horfum á sílækkandi framlög Íslendinga til þróunarsamvinnu miðað við hlutfall af vergum þjóðartekjum.

Ég hef ekki heyrt sannfærða þingmenn, eða þátttakendur í umræðunni hér, halda því fram að ekki sé rétt að stefna að því markmiði Sameinuðu þjóðanna að við í iðnríkjunum stefnum að því að veita 0,7% af vergum þjóðartekjum til þróunarsamvinnu. Hugsunin á bak við þá vinnureglu, þá tölu, sem væntanlega er þannig séð gripin úr lausu lofti, 0,7%, er auðvitað að þessir peningar komi að gagni, nýtist vel. Samkvæmt tillögu til þingsályktunar um áætlun um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands 2016–2019, sem var lögð fram á síðasta þingi en hefur ekki komið fram aftur núna, kláraðist ekki á síðasta þingi, var gert ráð fyrir að á árinu 2016 væru framlög Íslendinga 0,23% og mundu hækka í 0,25% af vergum þjóðartekjum árið eftir. Samkvæmt framlögðu frumvarpi núna lítur út fyrir að við séum að tala um 0,21%. Kæra Alþingi, það þykja mér sorglegar tölur. Ekki síst í því samhengi að svo stutt er síðan Alþingi, þá nýskriðið upp úr kreppu eftir bankahrun, var búið að samþykkja að komast í 0,46%. Það er svo langur vegur frá að við stöndumst einu sinni þær áætlanir sem Alþingi þó hefur samþykkt og ekki samþykkt að láta af. Þess þá heldur við þær aðstæður að við sjáum okkur ekki fært — eitt af ríkustu löndum heims, eins og hefur komið fram í umræðunum, land þar sem margar hagtölur skríða upp á við eftir erfiðleika — að við sjáum ekki sóma okkar í því að auka framlögin heldur minnka þau. Á sama tíma eyðum við púðri í að ræða breytingar á stofnanauppbyggingunni sem ég get því miður ekki samþykkt að séu almennilega rökstuddar.

Það eru vissulega einhver rök sem fylgja tillögunum. Þau eru þau sömu og fylgdu tillögunni á síðasta þingi. Í þeim umræðum, í meðförum utanríkismálanefndar og í þingsal, komu fram mjög margar spurningar og mjög gild mótrök við þessum rökum. Mér þykir dálítið sorglegt að við séum eiginlega á sama stað, án þess að við ræðum um leið stóraukin framlög í málaflokkinn. Þvert á móti erum við með þessum tillögum að búa til þá hættu, þann freistnivanda, að stærri hluti af þessari þó minnkandi köku fari til kostnaðar innan lands, þ.e. í kringum stjórnsýsluna. Með því að blanda því við önnur verkefni en beina tvíhliða þróunarsamvinnu Þróunarsamvinnustofnunar og tengja við önnur verkefni sem nú eru í utanríkisráðuneytinu verður því miður til freistnivandi til að færa fjármuni fjær gólfinu, fjær starfsemi í löndunum, í þeim samfélögum sem mest þurfa á að halda.

Ég minntist á að ég væri þakklátur fyrir að þessi umræða stæði hér enn. Það er vegna þess að í lok síðustu viku var ég ekki staddur hér á þingi þar sem ég sat aðalþing ALDE, samtaka frjálslyndra demókrata í Evrópu. Þar var mikil umræða um öryggismál, um árásirnar í París, um flóttamannavandann o.s.frv. en líka stórmerkilegur og mikilvægur fundur sérstaklega um þróunarsamvinnu sem þótti ástæða til að nota tíma þingsins í að ræða. Það var mjög fróðlegt að hitta frjálslynda demókrata frá Bretlandi sem tóku þátt í síðustu stjórn með íhaldsflokknum, sem var sú stjórn sem tók þá ákvörðun að hækka hlutfallið í Bretlandi og standa við 0,7% markmiðin, þrátt fyrir að vera í miðri niðursveiflu. Það var merkilegt að hitta frjálslynda demókrata sem höfðu tekið þátt í að berjast fyrir þessu og tekið þátt í þeim rökum af hverju það skipti máli fyrir Bretland, þrátt fyrir erfiðleika, að standa sína plikt í þróunarsamvinnu. Því þróunarsamvinna væri ekki bara gjafafé eða einhvers konar tíund heldur væri afleiðing góðrar þróunarsamvinnu uppbygging samfélaga og stofnana í öðrum samfélögum, eins og þeir sögðu, og góður bissness fyrir umheiminn og fyrir Bretland. Það er mikilvægt þjóðum sem eru heppnar og búa í samfélögum sem eru rík, búa við stöðugleika og frið sem við þrátt fyrir allt gerum meira að segja hér uppi á Íslandi, þrátt fyrir stór orð um alls konar hrun á hinu og þessu. Í stóra samhenginu höfum við það gott. Að heyra rök frjálslyndra demókrata frá Bretlandi um það að óhamingja í löndum langt í burtu frá Bretlandi bitni beint á breskum hagsmunum, beint á öryggi Breta — ég minni á, þegar umræðan er alltumlykjandi um vanda flóttamanna og fjölda flóttamanna í heiminum, ekki síst í kringum Evrópu, að þrátt fyrir stóraukinn fjölda flóttamanna frá stríðshrjáðum svæðum í Sýrlandi, Afganistan og Írak, eru þeir ekki nema rétt liðlega helmingur af þeim flóttamönnum sem koma til Evrópu. Síðast þegar ég sá statistík um það er meiri hluti flóttamanna, í það minnsta þeirra sem koma yfir Miðjarðarhafið, flóttamenn frá Afríku, frá þeim ríkjum sem verið er að veita mestu þróunaraðstoðina.

Það var líka athyglisvert að hitta frjálslynda demókrata frá Danmörku. Danir eru stórhetjur, svona eins og David Beckham þróunarsamvinnunnar í gegnum tíðina. Þróunarsamvinnustofnun Dana, Danida, er fyrirmyndarstofnun sem allir kinka kolli til. Í Danmörku hafa verið gerðar breytingar á Danida og Þróunarsamvinnustofnunin verið færð nær hinu pólitíska landslagi og ráðuneytum. Fulltrúar frá Danmörku viðurkenndu að það hefði því miður verið ákveðin tilhneiging til að tengja þróunarsamvinnuverkefni og fjármuni til þeirra öðrum verkefnum, verkefnum í friðargæslu, verkefnum tengdum viðskiptahagsmunum Dana, í utanríkisviðskiptapólitík o.s.frv.

Ekki vil ég standa hér í ræðustól Alþingis og ætla hæstv. utanríkisráðherra eða starfsmönnum utanríkisráðuneytisins þá vegferð. Þvert á móti. En með því að grafa undan sjálfstæði Þróunarsamvinnustofnunar skapast hætta á nákvæmlega þessari tilfærslu. Sporin hræða. Ekki endilega okkar spor á Íslandi heldur sporin frá öðrum löndum. Það var mjög gott fyrir þann þingmann sem hér stendur og gott veganesti inn í umræðuna — sem er orðin löng, sérstaklega ef við tökum saman þá góðu umræðu sem var og meðferð málsins á síðasta þingi — að sjá sjónarhornið utan frá, sjá hvaða víti ber að varast.

Ég sagði í ræðu í vor að þessi tillaga og vera mín í utanríkismálanefnd hefði í raun verið eins konar flýtinámskeið fyrir mig í málum þróunarsamvinnu. Ég stend við það. Því námi hefur verið haldið áfram hér í kvöld. Ég fæ sífellt meiri dýpt á þetta verkefni. Ég verð að segja að sú dýpt styrkir mig í andstöðu við framlagt frumvarp hæstv. utanríkisráðherra. Ég tel að það sé mikið óráð að leggja niður sjálfstæða Þróunarsamvinnustofnun. Ég tel það hættulegt faglega. Ég tel hættu á að fjármunir fari til spillis eða nýtist ekki í þau verkefni sem þeir eiga að gera. Ég tel að eftirlitshlutverki ráðuneytisins verði erfitt að sinna almennilega eftir að starfsemin hefur verið flutt inn í ráðuneytið. Þegar um fyrirmyndarstofnun (Forseti hringir.) er að ræða tel ég það mikið óráð.