145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[23:44]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hans ræðu. Hann talaði í upphafi og í lok ræðu sinnar um að almenn ánægja hefði verið hjá fagaðilum með starfsemi Þróunarsamvinnustofnunar. Í úttekt sem gerð var á Þróunarsamvinnustofnun, áður en við byrjuðum að taka þátt í DAC-samstarfinu, var stofnuninni sérstaklega hrósað fyrir það hversu vel henni hefði tekist að dreifa valdi, þ.e. að færa vald og ákvarðanatöku til sendiskrifstofa þar sem fulltrúar þeirra eru starfandi. Það fannst mér áhugavert, ekki síst í ljósi þess að þróunarsamvinna hefur á undanförnum áratugum, allavega síðust tveimur, grundvallast á því að unnið er með heimamönnum í að búa til vöxt og uppbyggingu innan frá en ekki með stórum lausnum utan frá sem eru hugsanlega dæmdar til að breyta samfélagsgerð og annað slíkt og ekki endilega til betri vegar. Þarna er verið að hrósa stofnuninni sérstaklega fyrir að gefa sendiskrifstofum sínum ákveðið frelsi til að vinna að ólíkum verkefnum með heimamönnum hverju sinni eftir því sem heimamenn telja mikilvægast fyrir sig. Þetta fannst mér áhugavert að lesa.

Ég er svolítið hrædd um að þessi sýn, þar sem menn horfa eingöngu á þróunarsamvinnu í sinni skýrustu mynd, geti með tímanum glatast. Þá er ég ekki að segja að það sé vegna þess að starfsmenn í ráðuneytum séu ófaglegir, nei, þegar verkefnin eru komin svona nálægt hinu pólitíska valdi er hætt við að prívatáherslur hvers tíma fari að ráða ríkjum fremur en hrein fagmennska þar sem fagmennirnir eru varðir með stofnun utan um sig.