145. löggjafarþing — 40. fundur,  25. nóv. 2015.

lengd þingfundar.

[15:05]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er fullkominn óþarfi að samþykkja tillögu um að lengja þingfund. Við búum svo vel í þinginu að þessi ríkisstjórn er að setja met í verkleysi og er sú verklausasta á þessari öld þannig að þeirri hættu er ekki fyrir að fara að brýn mál komist ekki til umræðu hérna þó að mál fái almennilega umræðu í dagsbirtu.

Ástæðan fyrir því að umræða hefur lengst um það tiltekna dagskrármál sem er fyrst á dagskrá hér í dag, alþjóðleg þróunarsamvinna, er sú að það er bara illa unnið. Það var ekki unnið vel í nefnd, það var fljótaskrift á meðferð þess þar og það bitnar á málinu að öðru leyti og það þarf vandaðri umræðu í þingsal. Við í stjórnarandstöðunni höfum boðið stjórnarmeirihlutanum upp á sanngjarnar lausnir í þessu máli. Ef hún vill ráðast í svona lítt hugsaðar breytingar er eðlilegt að þær taki gildi á nýju kjörtímabili. Fyrir því eru mörg dæmi að mál eru leyst með þeim hætti. Það er algjör óþarfi að efna hér til kvöldfunda. Ríkisstjórnin (Forseti hringir.) tryggir með verkleysi sínu að engin brýn mál bíða og við getum bara unnið þetta mál í ró og friði hér í dagsbirtu.