145. löggjafarþing — 40. fundur,  25. nóv. 2015.

lengd þingfundar.

[15:08]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég er í þeim hópi líka sem sér ekki sérstaka ástæðu til að halda kvöldfund í kvöld. Við vorum hér til miðnættis í gær og það er viðbúið að á morgun verði langur dagur og fundur áfram á föstudaginn þannig að kvöld- eða næturfundur á miðvikudegi er ekkert sérstaklega skynsamleg ráðstöfun, held ég, og ekki þörf á því, sérstaklega ekki ef tilgangurinn er aðallega að halda áfram með frumvarpsræsknið um að leggja niður Þróunarsamvinnustofnun. Ég held að eins gott sé að sleppa því ef menn ætla ekki að nota tímann til að reyna að tala saman og finna einhvern flöt á því máli eins og hér hefur verið boðið upp á af hálfu stjórnarandstöðunnar. Hæstv. ráðherra hefur sjálfur tafið mest fyrir sínu eigin máli með fjarveru sinni og framkomu við þingið. Málið er að því leyti til algjörlega komið upp á náð og miskunn þingsins, að það sýni að það sé þeim vanda vaxið að finna lausn á þessu máli. Hún virðist ekki ætla að koma frá ráðherranum eða úr stjórnarherbúðunum. Ég mundi halda að skynsamlegra væri að nota kvöldið í slíkar samningaviðræður og finni menn góðan málefnalegan flöt, sanngjarna málamiðlun, (Forseti hringir.) í sambandi við meðferðina á þessu máli mætti hugsa sér að nota tímann og vísa því í nefnd til að klára þá lausn þar.