145. löggjafarþing — 40. fundur,  25. nóv. 2015.

lengd þingfundar.

[15:21]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég kem hér aftur upp til að vekja athygli á lokaorðum hv. 3. þm. Norðvest., Ásmundar Einars Daðasonar. Hann sagði að honum þætti sjálfsagt að hafa hérna langan þingfund til að stjórnarandstaðan gæti talað fram eftir kvöldi í andsvörum við sjálfa sig. Þetta undirstrikar nákvæmlega hugarfarið sem einkennir það þegar meiri hlutinn vill fá kvöldfund til að minni hlutinn geti talað meira. Ef Alþingi virkaði eins og maður ætlast til að það virki væru það þeir sem vildu tala sem bæðu um lengri þingfund. Það er ekki þannig. Ástæðan er sú að þetta samband milli meiri hluta og minni hluta veldur veseni í stað þess að menn tali einfaldlega saman. Orð hv. þingmanns undirstrika að hugsunin hjá stjórnarmeirihlutanum er ekki að rökræða þetta mál eða koma sínum sjónarmiðum á framfæri eða koma hér í pontu og lýsa yfir stuðningi við það. Málið er einfaldlega að þreyta stjórnarandstöðuna og hunsa og hunsa, og hunsa aðeins meir.