145. löggjafarþing — 40. fundur,  25. nóv. 2015.

lengd þingfundar.

[15:24]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég hélt að þingið ætti að vera samtal, það ætti að vera að rökræða. Að mínu áliti þýðir það meðal annars, eins og meirihlutafulltrúar í dag þekkja margir hverjir, að best sé að hafa það þannig að meiri hluti og minni hluti tali saman. Hvort sem samtal á sér stað úr pontu Alþingis eða með þeirri tillögu sem borin hefur verið hér á borð fyrir meiri hlutann um lausn á þessu máli þarf samtal að eiga sér stað.

Margir ráðherrar hafa fengið þetta mál í fangið. Enginn þeirra, sama hvar í flokki hann hefur verið, hefur ákveðið að láta af þessu verða fyrr en nú. Ég minni á að umsagnirnar þurfa ekki að vera margar. Það snýst um hvað er í þeim og þær hafa ekki allar mælt með því að málið fari fram með þeim hætti sem hér er gert.

Af því að hv. þm. Jón Gunnarsson talaði áðan er vert að minna á að þótt hann sé ekki friðarins maður alla daga tók hann að minnsta kosti inn raforkulögin, kerfisáætlun, og málið var lagfært í þinginu eftir það — með samtali. (Forseti hringir.) Og ég vona að hæstv. utanríkisráðherra taki sér það til fyrirmyndar.