145. löggjafarþing — 40. fundur,  25. nóv. 2015.

lengd þingfundar.

[15:29]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Mér finnst nú hæstv. utanríkisráðherra og þeir einn eða tveir framsóknarmenn sem bera í bætifláka fyrir hann og málið, vera farnir að minna á tveggja, þriggja manna her sem er í stríði en hefur gleymt fyrir hverju verið er að berjast. Það er orðin þráhyggja að sarga áfram með þetta mál. Tónninn í umræðunni af hálfu þessara talsmanna er þeim mun undarlegri þar sem hér hefur bæði í dag og í gær verið boðið upp á samtöl um lausnir í málinu sem væru í mjög hefðbundnum anda þess þegar menn takast á um mál af þessu tagi; að leita leiða til að setja það í annan farveg, eftir atvikum í gegnum breyttar tímasetningar eða annað í þeim dúr.

Það er af þeim sökum sem ég er andvígur því að halda þennan kvöldfund. Ég held að það sé óskynsamlegt og muni ekki skila okkur neinu. Það væri gáfulegra að nota tímann til að ræða saman um meðal annars þetta mál eða taka önnur mál fyrir. Það er eitthvað af þeim. (Gripið fram í.) Þótt blessunarlega (Forseti hringir.) lítið hafi komið frá ríkisstjórninni er eitthvað annað við að vera hér.