145. löggjafarþing — 40. fundur,  25. nóv. 2015.

störf þingsins.

[15:39]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég vil líka ræða kjör aldraðra og öryrkja. Á þessu ári hefur verið samið um launahækkanir til fjölda stéttarfélaga í landinu, það eru um tólf kjarasamningar. Að meðaltali hafa laun hækkað um 14% hjá þeim tólf aðilum sem samið hafa, sem er álíka mikil hækkun og stéttarfélög þeirra lægst launuðu, Starfsgreinasambandið, Flóabandalagið og fleiri, sömdu um að laun til félagsmanna þeirra yrðu, að lágmarki 300 þús. kr. eftir þrjú ár.

Nú ber svo við að ríkisstjórnin ætlar ekki að láta aldraða og öryrkja fá sambærilega hækkun og aðrar stéttir í þjóðfélaginu hafa fengið, og það eru ekki þeir lægst launuðu. Það á að hækka laun aldraðra og öryrkja um 9,4% frá næstu áramótum. Það er langt frá því að vera sambærilegt við það sem verið er að tala um að hækka lægstu laun um í landinu. Það þyrfti að vera að lágmarki 14%. Það er ekki okkur til sóma sem ríkri þjóð að skilja alltaf þessa hópa eftir. Það er ekki einu sinni þannig að kauphækkanir gildi þá frá 1. maí, nei, engar hækkanir eiga að verða þessa átta mánuði, frá 1. mars á þessu ári. Þær eiga að gilda frá 1. janúar á næsta ári. Það er okkur og þessari ríkisstjórn til skammar. Síðan ákvað kjararáð á dögunum að hækka laun okkar þingmanna og annarra æðstu embættismanna í þjóðfélaginu, ráðherra, dómara, presta, ráðuneytisstjóra, svo eitthvað sé nefnt, og ýmissa annarra, um 9,3%. Á það að gilda frá 1. janúar á næsta ári? Nei, auðvitað gildir það frá 1. mars á þessu ári. (Forseti hringir.) Það er enn eitt dæmið um ójöfnuðurinn sem við horfum upp á. Ég held að ríkisstjórnin ætti að sjá sóma sinn í því að lagfæra þetta í fjárlögum.


Efnisorð er vísa í ræðuna