145. löggjafarþing — 40. fundur,  25. nóv. 2015.

störf þingsins.

[15:43]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég ætla að ræða störf þingsins að þessu sinni. Með hliðsjón af því sem karpað var um áðan ræðum við oft og mjög lengi og ítarlega, að minnsta kosti stjórnarandstaðan, um mál sem mikill ágreiningur er um, en reyndin er sú að hér hafa einnig verið lögð fram ýmis frumvörp og þingsályktunartillögur sem ekki er neinn teljandi ágreiningur um, eða sem gætu í það minnsta fengið mjög eðlilega meðferð af hálfu þingsins. Hér bíða 57 frumvörp og 77 þingsályktunartillögur 1. umr. eða fyrri umræðu. Í nefnd eru átta mál af báðum tegundum, frumvörp og þingsályktunartillögur, og eitt mál af hvorri tegund bíður 2. umr. eða síðari umr.

Hér eru tillögur á borð við aðskilnað starfsemi fjárfestingarbanka og viðskiptabanka, mál sem við ættum að geta rætt málefnalega; dagur helgaður fræðslu um mannréttindi barna, maður hefði haldið að það væri tiltölulega óumdeilt mál og gæti fengið ágæta meðhöndlun í þinginu; jafnræði í skráningu foreldratengsla, samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, þ.e. að fela ríkisstjórninni að fullgilda þann samning, sem ég veit ekki til að nokkur ágreiningur sé um; tillaga um að fullgilda valfrjálsa bókun við samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum, enn og aftur ágreiningslaust mál sem hefði getað farið í gegn á síðasta þingi ef Alþingi starfaði ekki með þeim hætti sem raun ber vitni; og síðast en ekki síst tillaga um siðareglur fyrir alþingismenn. Flutningsmaður er enginn annar en hinn sérlega virðulegi forseti sjálfur.

Af frumvörpum er eitt sem bíður 2. umr.; sanngirnisbætur fyrir misgjörðir á stofnunum eða heimilum sem falla undir lög nr. 26/2007 (sanngirnisbætur vegna Landakotsskóla). Það eru mál sem við gætum tekið til umfjöllunar en gerum ekki. Ég tel það vera vegna þess að hér er fíll í herberginu (Forseti hringir.) — það heitir áfengisfrumvarpið. Við eigum að klára umræðu um það og koma því til nefndar til að geta haldið áfram eðlilegum þingstörfum.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna