145. löggjafarþing — 40. fundur,  25. nóv. 2015.

störf þingsins.

[15:59]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Hamingjusömustu hrægammar í heimi virðast vera vogunarsjóðirnir sem kröfur eiga í þrotabú íslensku bankanna. Þeir virðast hafa náð svo hagstæðum samningum við ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar að þeir flykkjast nú til landsins á kröfuhafafundi þar sem mætt er fyrir yfir 90% kröfuhafanna og samþykkja þessa samninga með 99–100% greiddra atkvæða. Þetta eru samningar um að þeir fái að fara út úr íslensku krónunni á undan öðrum, losna úr höftum, og þeir virðast meta það einróma sem svo að þetta sé hagfellt fyrir þá. Um það virðist enginn ágreiningur vera í þeirra röðum sem hlýtur að vera okkur öllum nokkurt umhugsunarefni um það hvernig haldið hefur verið á samningsstöðu Íslands í þessu stærsta hagsmunamáli íslensku þjóðarinnar, uppgjöri föllnu bankanna.

Síðast kom stjórnarmeirihlutinn hér inn með lagabreytingar og knúði í gegn breytingar á lögum til að lækka svokallað samþykkishlutfall því að stjórnarmeirihlutinn óttaðist að kröfuhafarnir mundu ekki mæta nægilega margir og ekki samþykkja nægilega margir til þess að það uppfyllti skilyrðin. Það var vegna þess að kröfuhafarnir höfðu sagt stjórninni að þannig væri þetta. Þetta virðist líka hafa verið algert vanmat á ánægju erlendra kröfuhafa með það tilboð sem þeim var gert. Það verður ekki séð að nein þörf hafi verið á þessari lagabreytingu, á þessari tilslökun fyrir erlenda kröfuhafa, á þessari lækkun á samþykkisþröskuldinum. Það voru ekki 85% sem studdu málið, það voru yfir 90% sem mættu og 99–100% kröfuhafa (Forseti hringir.) sögðu já. Hvað segir þetta, virðulegur forseti, um það hvernig haldið hefur verið á málstað Íslands í þessu efni?


Efnisorð er vísa í ræðuna