145. löggjafarþing — 40. fundur,  25. nóv. 2015.

störf þingsins.

[16:02]
Horfa

Heiða Kristín Helgadóttir (Bf):

Herra forseti. Mig langar að gera stöðu ungs fólks að umtalsefni vegna þess að við höfum gjarnan haldið innblásnar ræður um stöðu ungs fólks. Ein þeirra var haldin í vikunni þar sem hæstv. forsætisráðherra talaði um að það væri ekki nema eðlilegt að ungt fólk skoðaði heiminn eftir að hafa náð að borga niður skuldir sínar hér.

Í því samhengi langar mig að vitna í grein sem ég las í morgun í Stundinni eftir Jóhannes Benediktsson þar sem segir að staða ungs fólks sé alls ekki eins glæsileg og forsætisráðherra vill vera láta. Þar kemur meðal annars fram að elsti aldurshópurinn hafi verið að ná vopnum sínum en yngri kynslóðin sé alls ekki að gera það. Þar segir, með leyfi forseta:

„Í venjulegu árferði aukast eignir einstaklings sem er á bilinu 20–29 ára um 4 milljónir á áratug en þessi tala hefur skroppið saman í rúma milljón á síðustu tíu árum.“

Þetta sýnir mjög skýrt við hvaða vanda er að etja. Í því samhengi langar mig líka að tala um stefnu stjórnvalda varðandi LÍN, Lánasjóð íslenskra námsmanna. Hver er stefna stjórnvalda varðandi nám ungs fólks og Íslendinga erlendis? Námslán og framfærsla fyrir fólk sem er að læra erlendis hefur skroppið gríðarlega mikið saman undanfarið og maður spyr sig hvort stefnan sé sú að það eigi bara ekkert að gera fólki kleift að mennta sig annars staðar en hér. Það þykir mér mjög vond stefna vegna þess að ég tel mikilvægt að fólk hafi tækifæri til að komast í nám erlendis. Við bjóðum einfaldlega ekki upp á allt það nám sem við þyrftum að geta boðið upp á hér. Ég tek heils hugar undir það með forsætisráðherra að það er gott fyrir fólk að skoða heiminn, en ég tel að það sé eitthvað meira og verra á ferðinni en að fólk sé í einhvers konar ævintýraþrá. Hér er við djúpstæðan vanda að etja og við verðum að fara að tala um hann, horfast í augu við hann og grípa til aðgerða því að annars munum við sitja uppi með samfélag sem ég held að sé okkur ekki til sóma.


Efnisorð er vísa í ræðuna