145. löggjafarþing — 40. fundur,  25. nóv. 2015.

loftslagsmál og markmið Íslands.

[16:43]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég verð eiginlega að taka undir ýmislegt sem kom fram í máli hv. þm. Vilhjálms Árnasonar um að við eigum ekki að festa okkur í einhverju einu kerfi þegar kemur að því að skipta út bensín- eða dísilbílum. Mér finnst mjög mikilvægt að við finnum einhverja sameiginlega sýn um það hvert við viljum fara, alveg eins og þegar til dæmis var ákveðið að skipta olíukyndingu út fyrir hitaveitukyndingu. Þá var það meiri háttar stór og dýr ákvörðun. Af því að við erum svo fá gætum við alveg farið út í einhver slík verkefni sem mundu spara okkur mjög mikið til framtíðar, fyrir utan að loftið yrði sennilega betra ef við losnuðum við eitthvað af þeirri mengun sem kemur af dísil- og bensínbílum.

Það er að svo mörgu að hyggja. Ég held að þau skref sem hæstv. umhverfisráðherra hefur lagt til að við aðstoðum ráðherrann við, öll sem eitt, séu mjög mikilvæg á okkar sameiginlegu vegferð. Það er alveg gríðarlega mikilvægt að við sem þjóð séum sammála um það hvert við viljum fara til framtíðar þegar kemur að lífsgæðum fyrir komandi kynslóðir. Við viljum auðvitað ekki skilja eftir okkur þannig heim að það sé erfitt að fá hreint vatn, að við búum við öfgaveðurfar, að sjórinn í kringum landið okkar verði svo súr að þar þrífist ekki líf. Auðvitað viljum við ekki þannig heim. Við þurfum bæði sem einstaklingar og sem löggjafi að fara að huga að því í hvernig samfélagi og framtíð viljum við búa. Það er gott að byrja hreinlega að tala við vini og vandamenn um það hvernig (Forseti hringir.) við viljum að Ísland verði eftir 25 ár.