145. löggjafarþing — 40. fundur,  25. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[17:04]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ýmis skilningur í stjórnarskrá sem ég tel því miður veikan og á gráu svæði og hafa verið frá upphafi lýðveldisins.

Þess vegna tel ég svo mikilvægt að við endurskoðum stjórnarskrána í heild sinni aftur, og aftur og aftur ef við þurfum. Að mínu mati hefur þessi óskýrleiki verið meðal einkenna þess að við séum með óútpælda stjórnarskrá, ég kann ekki að orða það betur, sem reynsla hafi þó síðar orðið mikil af í dómskerfinu. Menn hafa vissulega fundið út úr því hvernig þeir ætla að túlka og eru því oft hræddir við nýja stjórnarskrá af ótta við að þurfa að túlka upp á nýtt ýmislegt sem er komið á hreint út frá gildandi stjórnarskrá. Ég tel þetta vera eitt af vandamálunum. Sér í lagi þegar kemur að samskiptum þings og ríkisstjórnar tel ég eitt af stóru atriðunum vera stærra en fólk almennt telur, aðskilnað ríkisvaldsins og löggjafarþingsins. Með því á ég við þá staðreynd að ráðherrar eru jafnan þingmenn líka. Þeir hafa atkvæðisrétt og hafa mjög náin tengsl við þingflokka. Ég er viss um að til eru ráðherrar sem telja þingflokksformenn einhvers konar undirmenn sína. Það tel ég mjög óhollt fyrirkomulag og held að það þýði að ríkisstjórn sé alltaf ákvörðuð út frá því hvort ríkisstjórnin geti varist vantrausti. Það er að mínu mati mjög óeðlileg forsenda í sjálfu sér.

Að mínu mati ætti ríkisstjórn alveg að geta starfað þótt meiri hluti þingsins sé ekki endilega í sömu flokkum og ríkisstjórnin. Sú staðreynd að menn leggi aðaláherslu á þetta þegar þeir eru að mynda ríkisstjórn á Íslandi þykir mér benda til þess og undirstrika að við búum við mikla valdabröltsmenningu sem mér finnst mjög óholl.

Ég tel algjörlega nauðsynlegt að endurskoða samskipti Alþingis og ríkisstjórnar og tel að það þurfi að gera með endurskoðun á ákvæði í stjórnarskrá.