145. löggjafarþing — 40. fundur,  25. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[17:50]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég vil skora á hæstv. utanríkisráðherra að svara þessum spurningum. Ég á svolítið erfitt með að svara því hvað er að gerast innan búðar hjá hæstv. ráðherra. Ég verð samt að segja að þetta kemur mér svolítið á óvart og virðist vera gegnumgangandi hjá ráðherrum Framsóknarflokksins. Nú á ég ekki í neinum vandræðum með að vinna með ráðherrum og oft er skotið á fundum með til dæmis hæstv. innanríkisráðherra. Hæstv. fjármálaráðherra er mjög duglegur að svara fyrir sig ef maður beinir fyrirspurnum að honum. Mér finnst þetta einkennast af svipuðu og tíu daga hlé sem var haldið á fundum stjórnarskrárnefndar af því að hæstv. forsætisráðherra vildi funda með formönnum minni hlutans. Síðan var engin ástæða til að funda með honum og svo tíu dögum síðar mátti aftur setja á fundi í stjórnarskrárnefnd og enn hefur ekki verið boðaður neinn fundur. Mér finnst þetta í svipuðum anda. Annaðhvort er þetta reynsluleysi, virðingarleysi eða áhugaleysi á að vinna saman að lausnum. Mér finnst mjög leiðinlegt að hæstv. utanríkisráðherra sýni ekki meiri vilja til að ná þverpólitískri sátt á þinginu um þetta mál. Mér finnst jafnframt mjög leiðinlegt að hv. formaður utanríkismálanefndar láti draga sig inn í þessa vitleysu.