145. löggjafarþing — 40. fundur,  25. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[18:15]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Stjórnarandstaðan hefur verið að reyna að ná einhverri sátt og byggja brýr í þessum efnum til að ná eyrum hæstv. utanríkisráðherra og annarra í meiri hlutanum um þessi mál. Velt hefur verið upp hugmyndum eins og þeirri að fresta gildistökunni um eitt eða jafnvel tvö ár. Mig langar að heyra frá hv. þingmanni hvernig sá tími yrði nýttur. Ýmsu hefur verið velt upp í þeim efnum.

Ég er hér með umsögn sem framkvæmdastjóri Þróunarsamvinnustofnunar Íslands gaf í fyrra um skýrslu Þóris Guðmundssonar um þróunarsamvinnu. Þetta frumvarp byggist á skýrslu Þóris. Hjá framkvæmdastjóranum koma fram ýmsar hugmyndir, svo sem að leitað verði eftir áliti Ríkisendurskoðunar á tillögum um skipulagsbreytingar og annað því um líkt.

Hvað sér hv. þingmaður fyrir sér að hægt væri að gera á þessum tíma af hálfu þingsins? Er hægt að réttlæta þær breytingar sem hæstv. ráðherra vill ná fram? Getum við fundið einhverja málamiðlun í þessum málum sem pólitísk sátt getur myndast um?