145. löggjafarþing — 40. fundur,  25. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[18:22]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður vekur athygli á enn einni ástæðu þess að í raun megi það í léttu rúmi liggja fyrir hæstv. utanríkisráðherra þó að gildistöku þessa frumvarps verði frestað nokkuð. Allir vita að þessi skipulagsbreyting er ekki hugmynd hæstv. utanríkisráðherra Gunnars Braga Sveinssonar. Það hygg ég að hann hafi sjálfur ítrekað staðfest. Þetta er gömul hugmynd sem embættismenn í utanríkisráðuneytinu hafa haft um skipulagsbreytingu árum ef ekki áratugum saman. Það er ekkert bundið við stjórnarandstöðuna á þingi að hafa efasemdir um hana. Lengi hafa verið efasemdir um hana hjá starfsmönnum og stjórnendum í Þróunarsamvinnustofnun, en ekki bara hjá þeim, ráðherrar úr bæði Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum hafa einnig haft gildar efasemdir um hana, sem eðlilegt er.

Skipulagsbreytingar orka alltaf tvímælis. Þær eru í sjálfu sér ekki sérstakt flokkspólitískt mál. Það er kannski þess vegna sem mér finnst ankannalegt að ráðherra skuli ekki hafa léð máls á einhvers konar málamiðlun í málinu því að í raun og veru er málið hugmynd embættismanna í ráðuneytinu. Látum vera að ráðherrann hafi talið að þetta væri nægilega góð hugmynd til að fara í þinglega meðferð. En þá hefði ég talið eðlilegt að ráðherrann léði líka máls á því í hinni þinglegu meðferð að skoða hvort fresta mætti gildistöku um tvö ár því að hugmyndin hefur ekki orðið að veruleika síðustu 20 árin sem hún hefur legið á borðinu í utanríkisráðuneytinu. Það er bitamunur en ekki fjár á því hvenær hún öðlast gildi.