145. löggjafarþing — 40. fundur,  25. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[18:35]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir ræðuna. Þetta er í fyrsta skipti sem mér finnst hæstv. ráðherra hafa haft uppi ákveðna tilburði til að fara efnislega inn í þessa umræðu og koma með rök og svara að einhverju leyti spurningum sem fyrir hann eru fram bornar. Þá verð ég að taka undir með hv. þm. Óttari Proppé sem sagði hér undir miðnætti að umræðan væri að batna. Það er framför í málinu.

Varðandi hin faglegu rök, hæstv. ráðherra segir og það skil ég upp að vissu marki að hann vilji ekki fara út í það að benda á eitthvað sem sé að en vilji samt bæta. Hann vill samt bæta eitthvað sem hann vill þó ekki benda á hvar liggi brotalamir í.

Ég spyr á móti. Erum við ekki með lið í úrvalsdeild? Bíddu, erum við ekki með liðið í úrvalsdeild, og hvers vegna að breyta leikskipulaginu ef sú er staðan? Er það ekki staðreynd mála? Þessi stofnun hefur verið vel rekin, fengið góðar einkunnir bæði innan lands og erlendis, er til fyrirmyndar, útnefnd fyrir það, og hefur náð mjög góðum árangri í þeim efnum á undanförnum árum.

Ef þar er eitthvað af því tagi sem var nefnt, eins og einhver samlegðaráhrif væru í því að sameina gagnagrunna, sameina þátttöku í alþjóðlegum stofnunum og öðru slíku, þá væri ágætt að fá skipurit yfir það, fá skema yfir það og velta málinu fyrir sér út frá þeim sjónarhóli hvort ekki væru til ýmsar aðrar leiðir til að ná betri árangri í þeim efnum en þær að stúta stofnuninni. Ég hefði byrjað á aðeins vægari meðulum ef það er eitthvað svona lagað sem menn eru að tala um.

Hæstv. ráðherra viðurkennir að markmiðið sé ekki hagræðing og það er gott. Það má þá ýta því út af borðinu. Varðandi samþættinguna og það sem rök að 60% af útgjöldunum sé ráðstafað af ráðuneytinu. Já. Það hefur einmitt verið bent á að kannski sé það ein skekkjan í framkvæmdinni í dag að ráðuneytið sé með of mikið inni hjá sér af því sem ætti að vera í raun, samkvæmt grunnskipulaginu eins og það er hugsað, í Þróunarsamvinnustofnun. Helmingur DAC-ríkjanna er samkvæmt upplýsingum (Forseti hringir.) ráðherra með þetta í sjálfstæðri stofnun, helmingurinn í ráðuneytinu. Hvað ætli mörg af seinni helmingnum, löndin, séu með (Forseti hringir.) sjálfstæðan ráðherra eða undirráðherra yfir þróunarmálum sem þar með er auðvitað sjálfstæðari eining í miklu stærri ráðuneytum?