145. löggjafarþing — 40. fundur,  25. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[18:49]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að þessar hugmyndir um að sameina þróunarmálin inn í ráðuneytið eru ekkert nýjar af nálinni. Það er ekki þannig. Ég held að ég hafi örugglega ekki haldið því fram að mér hafi dottið í hug einn morguninn þegar ég vaknaði að þetta væri líklega sniðugt. Það sem mér ber hins vegar að gera eins og öðrum sem bera ábyrgð á ráðuneytunum er að skoða alla kosti, öll þau svið og allt sem undir okkur heyrir og velta því upp og meta hvort við erum að gera nógu vel eða hvort við getum gert betur o.s.frv.

Ég kynnti mér að sjálfsögðu þær skýrslur sem áður höfðu verið skrifaðar um möguleikana á að sameina þetta á einn stað, þær vangaveltur. Það var í rauninni hvatinn til þess að ég ákvað, og nú verða þingmenn að sætta sig við það að það voru ekki starfsmenn ráðuneytisins sem beittu ráðherrann blekkingum eða þrýstingi, að leggja aftur í þessa vegferð og sjá hvort það kæmi út úr henni enn frekari rökstuðningur en áður hefur komið fram. Ég tel að niðurstaðan hafi leitt í ljós að svo er.

Varðandi það að fresta gildistöku verð ég að viðurkenna það, hv. þingmaður, að ég hef ekki séð ein einustu rök fyrir því að gera það. Það sem um að ræða er að verið er að sameina stofnunina inn í ráðuneytið til þess að fá sterkari liðsheild og betri yfirsýn yfir verkefni og slíkt. Það er ekki verið að fara í grunnbreytingu á nálguninni í þróunarsamvinnunni eða öðru slíku.

Það eru að vísu tillögur í skýrslu Þóris Guðmundssonar um hvort það eigi að vera svo og svo mörg lönd undir í einu, hvort það eigi að gera hlutina með þessum hætti eða öðrum. En það er eitthvað sem ég sem ráðherra hef ekki í hyggju að blanda mér neitt inn í. Það er það sem starfsmenn munu þurfa að fjalla um, sérfræðingar á þessu sviði, þegar sameiningunni er lokið. Þegar þetta er orðið eitt lið verður farið í að skoða frekari tillögur sem þarna er að finna.