145. löggjafarþing — 40. fundur,  25. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[18:56]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Þá er ágætt að fara yfir það sem manni finnst standa út af eða vera eftir til að ræða í þessum efnum. Það eru þó nokkur atriði enn þá. Nú hef ég vegið og metið svör hæstv. ráðherra við þeim fimm tölusettu spurningum sem ég bar fram og tel að í sjálfu sér höfum við útkljáð einar tvær þeirra, getum við sagt, með spurningu sem snýr að rekstrarhagræði. Hún liggur skýrt fyrir og engar deilur eru lengur um að niðurstaðan er, sem kemur reyndar fram í umsögn skrifstofu opinberra fjármála, að hugsanlegt sé að einhvern tíma í framtíðinni verði af þessu eitthvert rekstrarlegt hagræði. En það er ekki það sem að er stefnt með breytingunum og það er vel.

Varðandi faglegu rökin er ég ekki mjög sannfærður enn þá. Hér kom fram, og ég ætla ekki að vefengja að svo geti verið, að þessi breyting geti orðið til einhvers þægindaauka, sem ég kýs að kalla svo, hvað varðar til dæmis gagnauppbyggingu eða gagnavörslu eða gagnagrunna í ráðuneytinu og stofnuninni. Gott og vel. Það getur vel verið að það sé svo að breytingin geti orðið til einhvers þægindaauka í sambandi við að sækja fundi og ráðstefnur og eiga samskipti við erlenda aðila. Það eru nú ekki veigamiklar röksemdir. Það væri væntanlega hægt að beita vægari meðölum.

Faglegu rökin eru eitt af stóru málunum, tengt við samþættinguna, þ.e. hvernig menn sjá fyrir sér að þetta styrki og bæti faglega, óháða, vandaða þróunarsamvinnu og framkvæmd hennar sem er þannig uppbyggð að hún sé hafin yfir tortryggni og gagnrýni um að inn í hana blandist nokkrir aðrir hagsmunir. Það finnst mér vera eitt af stóru málunum í þessu, að við liggjum ekki undir grun, samanber reynslu annarra þar sem úttektir hafa sýnt að það hefur gerst. Hér hefur í þeim efnum verið vitnað til Hollands sem aftur leiddi til þess að Ítalir ákváðu að fara alveg þveröfuga leið. Menn vilja ekki vera berskjaldaðir fyrir þótt ekki sé nema tortryggni um að þeim gangi annað til en einir og einlægir hagsmunir þeirra sem unnið er með. Að því sé á engan hátt hrært inn í viðskiptahagsmuni, diplómatíska hagsmuni eða utanríkispólitíska hagsmuni viðkomandi ríkja.

Mér finnst standa eftir að ráðherra svari þá betur því sem komið var inn á áðan, þ.e. ágreiningnum sem er á þessa leið: Ófriðurinn sem hægt er að skapa. Fram hjá honum er ekki hægt að horfa. Þetta er gert í andstöðu við þá starfsmenn sem sinnt hafa þessum störfum, það held ég að liggi alveg fyrir. Það kom fram á forstigum málsins og er enn staðreynd að þeir sem sinna þessu dag frá degi og eru í þessum verkum og hafa af því reynslu í Þróunarsamvinnustofnun eru ekki meðmæltir breytingunni. Þeir telja núverandi fyrirkomulag vera betra. Ekki er þar með sagt að á því megi ekki gera ýmsar lagfæringar og samskipti ráðuneytisins og Þróunarsamvinnustofnunar gætu auðvitað verið með ýmsum öðrum hætti hvað varðar til dæmis ráðstöfun fjármuna.

Sennilega er það rétt að skekkjan út frá grundvallarhugsuninni sem lagt var upp með 2008 — fyrirkomulagið er nú ekki eldra — er að ráðuneytið hefur verið of gjarnt á að halda hjá sér ráðstöfun fjármuna sem hefðu sennilega betur átt að vera hjá Þróunarsamvinnustofnun. Þetta er því gert í andstöðu við starfsmenn og fagfólk, að minnsta kosti að verulegu leyti, en ef til vill ekki við það ágæta fólk sem vinnur í ráðuneytinu hjá ráðherra. Ég geri ráð fyrir að svo sé, án þess að ég viti það. Það er engin pólitísk samstaða. Hún er öll að brotna í mola. Menn hafa þó lagt á sig í gegnum árin að viðhalda henni. Það eru skiptar skoðanir um þetta víðar, það liggur fyrir. Aftur á móti hefur verið góður friður undanfarin ár um núverandi fyrirkomulag. Ég veit ekki til að það hafi verið deilur um það, samanber það sem ítrekað hefur komið fram um ágæta samstöðu á bak við starfsemi Þróunarsamvinnustofnun undanfarin ár.

Það eru margar leiðir færar ef vilji er til að skoða einhverjar lendingar í þessu máli. Það er gildistaka, að í sjálfu sér fái hæstv. ráðherra lögin en þau gangi ekki í gildi fyrr en málin hafa skýrst betur og mögulega má meta hvort áfram er pólitískur vilji fyrir því að gera þetta í upphafi næsta kjörtímabils. Það væri að breyta þessu í einhvers konar skilyrt heimildarlög. Í sjálfu sér fengi ráðherra heimild að uppfylltum vissum skilyrðum og ef til vill að undangengnu samráði við Alþingi um að gera þetta að hinu og þessu uppfylltu. Hér hefur verið nefnd hugmynd sem kostur C, sem er kannski ekki svo galin; að færa þetta að vísu undir ráðuneytið en að stofnunin fái að halda sér í heilu lagi og verði til áfram sem sjálfstæð eining undir ráðuneytinu. (Forseti hringir.) Benda má á 17. gr. laga um Stjórnarráð Íslands, eins og þeim var breytt síðastliðið vor, sem heimilar einmitt að setja á fót starfseiningu (Forseti hringir.) eða ráðuneytisstofnun. Ég var ekkert sérstaklega hrifinn af því fyrirbæri, en nú er það heimilt samkvæmt lögum. Ráðherra gæti því í sjálfu sér óskað eftir að fá heimild til að virkja (Forseti hringir.) þau ákvæði gildandi laga um Stjórnarráð Íslands án þess að leggja niður stofnunina.