145. löggjafarþing — 40. fundur,  25. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[19:15]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka svarið. Stofnunin mun án efa missa sjálfstæði ef hún er færð inn í ráðuneytið. Gæti það ekki ýtt undir að viðskiptahagsmunir Íslands í tengslum við ákveðin ríki yrðu hafðir meira að leiðarljósi en ella? Það hef ég séð í tengslum við svona samninga. Ég hef sjálf verið í fjölþjóðlegri þróunarsamvinnu, þ.e. ég hef verið í „þankatanki“ sem stýrir þess háttar vinnu. Þetta er alveg hápólitískt svið.

Þegar svona starfsemi er sett inn í það ráðuneyti sem stýrir erlendum viðskiptahagsmunum Íslands, er þá ekki hætta á því að við förum að blanda þróunarsamvinnu saman við viðskiptahagsmuni? Að við ákveðum að gera ekki ákveðna hluti? Á meðan við höfum sjálfstæða stofnun með sjálfstætt sjálfstæðan forstjóra erum við að reyna eftir fremsta megni að gera greinarmun þar á, og tryggja að fagleg rök muni ávallt vera tekin fram yfir viðskiptahagsmuni. Hv. þingmaður nefndi áðan í ræðu sinni dæmi um hvernig gert var í Hollandi, þar fór það ekki vel, en þó virðist vera að svona starfsemi sé í flestum ráðuneytum á Norðurlöndunum. Ég velti því þess vegna fyrir mér hvort það tíðkist bara að gera þetta svona eða hvort þetta muni ýta undir að viðskiptahagsmunir verði hafðir ofar í huga en eiginleg þróunarsamvinna.