145. löggjafarþing — 40. fundur,  25. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[19:17]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það sem ég hef kynnst þessu, óháð því hvort þetta sé enn þá í algjörlega sjálfstæðri stofnun utan ráðuneyta eða mjög sjálfstæð eining innan ráðuneyta eða tengd ráðuneytum, þá er stefnan og nálgunin nú orðið alls staðar sú sama, að menn frábiðja sér að vera vændir um að ganga einhvers konar erinda síns lands í þróunarsamvinnuverkefnum. Það er um það bil það síðasta sem menn vilja fá á sig ásakanir um, heldur að þeir séu í þessu á óháðum, faglegum forsendum og að þeim gangi ekkert til annað, það séu engir annarlegir hagsmunir, það sé ekkert smyglgóss með í ferð sem tengist viðskiptahagsmunum, pólitískum hagsmunum eða öðru slíku. Það er vandinn við samþættingarrökin að það er nefnilega ekki alltaf hægt bæði að sleppa og halda og það er yfirleitt aldrei hægt.

Ég óttast að sú hugsun manna að þeir geti náð einhverri voðalegri samþættingu með því að grauta þessu saman inn í ráðuneyti sem er með allt annars konar verkefni að uppistöðu til á sinni könnu, verði á kostnað þessa. Þar geti orðið erfiðara um vik að fyrirbyggja tortryggni í þeim efnum. Í grunninn er þetta auðvitað þannig að það verður að vinna þessi verkefni þannig út á við að við blöndum okkur að sjálfsögðu ekki í innri mál og pólitísk mál landanna sem við vinnum með. Við förum ekki inn með þróunarsamvinnuverkefni til þess að skipta um stjórnarfar í löndunum þó að við vildum það kannski gjarnan, en við leyfum okkur það ekki. Við erum að fara til að hjálpa fólkinu óháð því hversu lánsamt það er með stjórnarfar á sínum svæðum.

En sama gildir hérna heima, við blöndum pólitíkinni héðan ekki inn í verkefnin þar. Það er mjög mikilvægt. Það verður að vera á báðar hliðar og hafið yfir tortryggni. Það held ég að séu eiginlega orðin faglegu lögmálin í þessu (Forseti hringir.) í dag sem eru óumdeild. Ég á erfitt með (Forseti hringir.) að kyngja því að þetta mál sé til bóta eða framfaraskref ef maður setur það í þetta ljós.