145. löggjafarþing — 40. fundur,  25. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[19:19]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Í upphafi þingfundar í dag sótti hæstv. forseti heimild til kvöldfundar með atkvæðagreiðslu í þingsal. Það var ekki ákvörðun um kvöldfund heldur heimild til þess að halda hann ef slíkar aðstæður kæmu upp. Nú skil ég það svo að við séum í þann mund að fara í kvöldverðarhlé og sé það á þeim mat sem fram er borinn frammi að forseti ætlar vísast að halda þingfundinum áfram eftir kvöldverðarhlé.

Ég spyr um áformin hér í kvöld. Á þessum ágæta degi hefur það gerst að stjórnarandstaðan hefur lagt fram ákveðnar hugmyndir til lendingar í þessu máli og viðbrögð við því hafa verið engin. Hér er liðinn heill dagur án þess að stjórnarandstaðan hafi verið virt viðlits í þeirri viðleitni sinni. Ég spyr forseta: Hver eru áformin hér á þessum drottins degi?