145. löggjafarþing — 40. fundur,  25. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[19:22]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég er á svipuðum slóðum. Hér var knúinn á kvöldfundur gegn ráðleggingum og vilja okkar margra því að við töldum aðstæðurnar þannig að það væri ekkert sérstaklega skynsamlegt, sérstaklega frá þeim sjónarhóli að menn reyndu aðeins að bera sig saman og fara yfir málin, ræða það hvort ekki væru einhverjir fletir sem væri einhvers virði að skoða í sambandi við afgreiðslu þessa máls sem mikil áhersla er greinilega lögð á af hálfu hæstv. ríkisstjórnar. Það mætti halda að þetta væri það sem væri brýnast á Íslandi í dag, það að leggja niður Þróunarsamvinnustofnun. Það eru þá ekki vandamálin í því landi, segi ég, ef það er aðalverkefnið að leggja niður slíka afbragðsstofnun sem hún hefur sannað sig vera.

Við höfum nefnt bæði í umræðunum og eins hefur eins og gengur verið eitthvað þreifað á því á göngum að það væri vilji af okkar hálfu til að skoða í raun og veru ýmsar leiðir í þessum efnum. Hæstv. ráðherra hefur ekki tekið mikið undir það, a.m.k. ekki enn þá. Það kann að breytast. Ég er því á svipuðum (Forseti hringir.) slóðum að inna eftir því hvað standi til í þessum efnum. Er ekki skynsamlegt að fara að minnsta kosti í kvöldmat núna og gefa sér kannski sæmilegan tíma þannig að menn gætu ef til vill stungið saman nefjum? Ég sé ekki að okkur miði mikið fyrr en að við höfum reynt þetta til þrautar. Við vitum þá hvar við stöndum.