145. löggjafarþing — 40. fundur,  25. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[20:18]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þróun innan stjórnsýslunnar á undanförnum árum hefur verið mjög á einn veg og þar á meðal byggt á ábendingum sem koma úr rannsóknarskýrslu Alþingis, þ.e. að aðgreina einstaka þætti innan stjórnsýslunnar, að horfa til stefnumörkunar og ákvarðanatöku, að horfa til framkvæmdar og til eftirlits. Tilhneigingin hefur verið sú hjá okkur hér í þessum sal að reyna að koma þessu þannig fyrir að þingið taki ákvörðun um stefnumótun og að einhverju leyti um framkvæmdir. Það er síðan iðulega útfært í ráðuneytum og síðan er framkvæmt annars staðar eins og til dæmis hjá Vegagerðinni. Hún framkvæmir og reyndar útvistar að miklu leyti því sem hún gerir, síðan er eftirlitið. Það er þá aftur ráðuneytið og þingið sem þar kemur til skjalanna. Það er byggt á þessari aðgreiningu.

Hér er verið að ganga í gagnstæða átt, að taka stofnun, sem í ofanálag er talin vel rekin og gegna sínu hlutverki mjög vel, og færa hana inn til þess aðila sem er með stefnumótun og ákvarðanatöku á sinni könnu og síðan eftirlit þó að það verði eftir sem áður að sjálfsögðu einnig með aðkomu utanaðkomandi aðila og þingsins. Þarna tel ég að verið sé að ganga í gagnstæða átt við það sem okkur hefur verið ráðlagt að gera og virðist vera viti borið.