145. löggjafarþing — 40. fundur,  25. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[21:06]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið.

Ég tek undir með Ríkisendurskoðun sem hefur sagt að eftirlit verði auðvitað ekki með sambærilegum hætti. Skýrslugerð og utanumhald um verkefnin verður ekki eins gagnsætt. Ég held að það sé alveg klárt mál. Það er svolítið sérstakt að leggja út í slíka vegferð þegar ákall er að gagnsæi ríki um sem flest verkefni ríkisins. Það má líka alveg velta fyrir sér að formaður fjárlaganefndar sem hefur talað mikið um að hafa eftirlit með stofnunum og öðru slíku skuli í rauninni vilja fara þessa leið þar sem þetta hverfur inn í hítina hjá utanríkisráðuneytinu og afskaplega lítið í rauninni hægt að fylgjast með því.

Meðferð fjármuna, hvernig því verður háttað. Það helst auðvitað í hendur við þetta. Við vitum í sjálfu sér afar takmarkað hvernig þetta er í ráðuneytunum. Skóli Sameinuðu þjóðanna og friðargæslan hafa verið nefnd sem dæmi í þessari umræðu varðandi það að allar úttektir vantar og ekkert gagnsæi er um þá starfsemi. Það er mjög bagalegt. Verið að setja í þetta fjármuni. Þetta eru verkefni sem öll eru eflaust ágæt og allt það, en það sýnir okkur og staðfestir enn frekar að þetta er ekki leiðin sem við viljum fara.

Mér finnst líka ótækt eins og umsögn Rauða krossins hljóðar, að nefndin hafi ekki gefið sér tíma til að fara yfir þau atriði. Þó að málið hafi verið rætt á síðasta þingi þá gildir ekki það sama núna. Þetta er mál á þessu þingi sem þarf að ræða sem nýtt mál. Þannig er það nú bara.