145. löggjafarþing — 40. fundur,  25. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[22:40]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu neitt sérstaklega mikið úr því sem komið er, ég vona að ráðherra loki henni hér á eftir með svörum. Mig langar hins vegar til að fara yfir nokkur atriði og beina tveimur spurningum til ráðherra. Við höfum tekið undir orð Ríkisendurskoðunar þar sem hún varar við því fyrirkomulagi að einn og sami aðili móti stefnuna, framkvæmi hana og hafi eftirlit með henni.

Það hefur komið skýrt fram að Þróunarsamvinnustofnun sætir miklu eftirliti. Gagnsæi stofnunarinnar er mikið, skulum við segja, og það hefur verið viðurkennt. Mig langar til að ráðherra upplýsi um það hvort hann sjái fyrir sér að upplýsingagjöf verði með sambærilegum hætti, hvort hún getur yfirleitt orðið það, í ráðuneytinu. Maður dregur enga dul á að það er vanalega ekki þannig. Við höfum tekið dæmi um Friðargæsluna og skóla Sameinuðu þjóðanna en mér vitanlega liggja ekki fyrir neinar úttektir sem sýna tiltekinn árangur. Það er ástæða fyrir því að maður hefur þessar áhyggjur.

Mig langar líka til að spyrja ráðherrann um Heimsljós. Það er fagtímarit sem hefur verið starfrækt á vegum Þróunarsamvinnustofnunar eða af starfsfólki þar, afskaplega yfirgripsmikið. Ég mundi vilja fá staðfestingu á því hvort það verður áfram við lýði. Passar það inn í starfsemina í ráðuneytinu eins og hún er hugsuð? Við vitum að það er ekki svo að þetta verði algjörlega óbreytt. Það er ekki raunsætt að leggja það þannig upp að starfsemin, þegar hún fer inn í ráðuneytið, verði óbreytt. Verkefnin á vettvangi verða vonandi þau sömu en þó er það ekki heldur alveg ljóst og þess vegna tel ég mjög mikilvægt að við fáum að vita þetta. Mér mundi þykja afskaplega miður, fyrir faglega umfjöllun um þróunarmál yfirleitt, ef þetta tímarit, veftímaritið Heimsljós, yrði ekki gefið út áfram.

Það væri líka gott að fá svör við mörgum öðrum spurningum sem hér hafa verið lagðar fram en hefur ekki verið svarað. Ég fagna því að niðurstaða er komin í málið, að mér skilst, þ.e. að málið fari aftur til nefndar og þessar tillögur sem minni hlutinn hefur lagt upp með verði í það minnsta ræddar og þá þau álit sem vitnað hefur verið í. Sá sem talaði á undan mér vitnaði meðal annars í athugasemdir af hálfu Rauða krossins sem mér skilst að fáist þá ræddar. Orð eru til alls fyrst og þess vegna fagna ég því hver sem endanleg niðurstaða verður.

Ég er ekki endilega viss um að við snúum ráðherra, ég er ekki svo bjartsýn, en leyfi mér þó að reyna að vera það í ljósi þeirra mála sem hér hafa verið rakin þar sem sýnt hefur verið fram á að okkur hefur tekist, stjórn og stjórnarandstöðu, hvorum megin borðsins sem við höfum setið, að leggja mál inn til lengri tíma til að ná sáttum. Mig langar að vita þetta tvennt, sérstaklega með upplýsingagjöfina, úttektirnar og annað slíkt, í ljósi þeirra dæma sem ég nefndi hér áðan og svo vil ég fá að vita hvað verður um fagtímaritið Heimsljós.