145. löggjafarþing — 41. fundur,  26. nóv. 2015.

afstaða stjórnvalda til öryggismála.

[10:38]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra þessi orð. Milli mín og hennar er enginn skoðanaágreiningur að þessu leyti. Auðvitað þarf að ná tökum á ytri landamærum Schengen. Og auðvitað er mögulegt innan ramma Schengen-regluverksins, eins og það liggur, að taka tímabundið upp landamæraeftirlit hér á landi ef aðstæður kalla á það sem og hættumat.

Það sem ég geri ágreining við ríkisstjórnina um og við hæstv. forsætisráðherra er að hann skuli koma með almennar yfirlýsingar um að Schengen sé ekki af hinu góða, það sé enginn ávinningur í því samstarfi. Ég er í grundvallaratriðum ósammála því, ég tel að Ísland hafi hagnast á opnum landamærum. Ég tel að tækifæri hafi vaxið á Íslandi vegna þess að við höfum verið aðilar að Schengen og ég tel að aðild að Schengen-gagnagrunnunum sé grundvallarforsenda þess að Ísland geti yfir höfuð látið sig dreyma um að taka á móti meira en milljón ferðamönnum og byggja grundvallaratvinnuveg upp sem felst í því að fólk flykkist til landsins. (Forseti hringir.) Miðað við þær forsendur sem við höfðum til að meta bakgrunn fólks sem kom til landsins áður en Schengen-samstarfið kom til hefði verið fullkomlega óhugsandi að byggja upp ferðaþjónustu í þessu landi í þessu magni, svo dæmi sé tekið.