145. löggjafarþing — 41. fundur,  26. nóv. 2015.

afstaða stjórnvalda til öryggismála.

[10:39]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Það er alveg ljóst að það hefur aldrei fyrr reynt með þvílíkum hætti á samstarf Schengen-ríkja og ytri landamæri Schengen. Nánast allt þetta ár hafa menn reynt með ýmsum leiðum að nálgast það viðfangsefni að tryggja ytri landamærin. Fram til þessa hefur það ekki tekist á fullnægjandi hátt. Það verður ekki endalaust tími til að leysa úr þeim vandkvæðum og það er mikilvægt að öll Schengen-ríkin geri sér grein fyrir því. Við gegnum líka hlutverki hér í norðri á ytri landamærum Schengen í hina áttina, ef svo mætti að orði komast, þannig að þetta skiptir alveg feikilega miklu máli.

Það kann vel að vera að sú rödd verði háværari innan Schengen-ríkjanna og jafnvel innan ráðherraráðsins að ástæða sé til að taka bara upp landamæraeftirlit alls staðar eins og má gera, reisa landamærin alls staðar eins og má gera innan regluverksins. Það má gera það í öllum ríkjum Schengen. Það er reyndar (Forseti hringir.) skylt, sú ákvörðun verður tekin og það getur staðið í allt að eitt ár. Það er ágætt að menn hafi það í huga.