145. löggjafarþing — 41. fundur,  26. nóv. 2015.

vopnaburður lögreglunnar.

[10:45]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið og fagna því að skýrslan komi á morgun. Það er nú oftar en ekki sem maður þarf að fagna svari hæstv. innanríkisráðherra hér á bæ. En ég vil þó hafa það alveg á hreinu að ég spyr ekki af vanvirðingu gagnvart því að lögreglan þurfi að hafa viðeigandi búnað og valdheimildir til að sinna starfi sínu. Ég spyr vegna þess að það er ekki viðunandi eftirlit með störfum lögreglunnar eins og er. Ég tel mikilvægt að ráða bót á því áður en farið verður í það að efla sér í lagi vopnabúnað og valdheimildir. Nú er fólk óttaslegið vegna hryðjuverkaógnar, eins vegna tengdra ógna, svo sem haturs í garð múslima og annarra tengdra mála sem ég hef ekki tíma til að fara yfir hér, og því sýnist mér liggja á. Mér þykir mikilvægt að við áttum okkur á því að þá liggur á að auka eftirlitið og umfram allt að hafa það sjálfstætt.