145. löggjafarþing — 41. fundur,  26. nóv. 2015.

vopnaburður lögreglunnar.

[10:46]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Ekki hafa verið teknar neinar ákvarðanir um breytingar á þeim reglum sem gilda um vopnaburð lögreglu, valdbeitingar lögreglu eða slíka hluti. Það sem verið er að vinna eftir er allt á grundvelli núgildandi reglna og innan þeirra marka sem við höfum þegar sett okkur. Það er því mjög mikilvægt að menn hafi það alveg á hreinu að slíkar breytingar hafa ekki verið gerðar.

Síðan er ágætt að þegar skýrslan kemur í hendur okkar í ráðuneytinu förum við yfir þann þátt málsins þannig að þetta geti spilað saman. En ég legg áherslu á að það skiptir máli að lögreglan hafi þær aðstæður sem hún þarf að hafa til að geta gegnt hlutverki sínu og að á sama tíma ríki fullkomið traust um störf hennar.