145. löggjafarþing — 41. fundur,  26. nóv. 2015.

staða Íslands í Schengen.

[10:49]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Það hefur engin ákvörðun verið tekin um stefnubreytingu gagnvart Schengen af hálfu íslenskra stjórnvalda. Við erum aðilar að Schengen, við njótum regluverks Schengen, við nýtum okkur regluverk Schengen og við fylgjumst með því sem fram fer á vettvangi Schengen. Við gerum okkur grein fyrir þeim veikleikum sem eru núna á Schengen-svæðinu, við höfum af því verulega miklar áhyggjur eins og önnur Schengen-ríki. Það er alveg ljóst að aldrei áður hefur reynt eins mikið á Schengen og nú gerir og miklu máli skiptir að það takist að ná tökum á því. Það er mikið grundvallaratriði. Hvernig til tekst á næstunni mun hafa afgerandi áhrif á það hvernig framhald þessa samstarfs mun verða. Það eru ekki áhyggjur sem eiga sér stað bara á Íslandi. Þær raddir eru að ég hygg í öllum Schengen-ríkjum. Það hafa allir af því áhyggjur að ytri landamæri Schengen eru svo brostin sem nú eru og allir vilja ná tökum á því. Það verkefni blasir við og það verður að takast. Mikilvægt er að við séum með opin augun fyrir bæði kostum og göllum þess að vera aðilar að Schengen og við skulum ekki vera hrædd við að ræða galla Schengen þó að við þurfum líka að gera okkur grein fyrir kostunum.

Við höfum ekki tekið neinar ákvarðanir um að herða landamæraeftirlitið umfram það sem nú er, þá er ég að tala um að reisa eigi íslensku landamærin. Sú ákvörðun verður tekin þegar fyrir liggur hættumat ríkislögreglustjóra. Hann getur hvenær sem er og á hverjum tíma gert það. Hann fylgist grannt með því hvort þörf sé á að herða landamæri Íslands. Komi slíkt hættumat fram af hálfu ríkislögreglustjóra munum við að sjálfsögðu bregðast við því. Ekki hefur komið til þess enn þá, ríkislögreglustjóri fylgist mjög grannt með, ég ítreka það, og það getur komið til þess með mjög skömmum fyrirvara, en á þessari stundu hefur ekki verið tekið ákvörðun um að reisa íslensku landamærin.