145. löggjafarþing — 41. fundur,  26. nóv. 2015.

staða Íslands í Schengen.

[10:51]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að tala skýrt, að hér hafi engin stefnubreyting orðið sem hlýtur að teljast afar mikilvægt í ljósi ummæla hæstv. forsætisráðherra þar sem hann talar um þessi mál í hálfkæringi, svo ekki sé fastar að orði kveðið. Í sama viðtali kemur fram að til þess bær yfirvöld séu að skoða hert landamæraeftirlit. Ég tel að hæstv. ráðherra hafi svarað því í sínu fyrra svari hvar sú vinna er stödd.

Mig langar í lok seinni spurningar minnar að hvetja hæstv. ráðherra hvað varðar framvindu og framgang nýs frumvarps til útlendingalaga, sem þverpólitísk þingnefnd afhenti ráðherranum á dögunum og næsta skref í því máli var að fara með málið fyrir ráðherranefnd um flóttamannamál, ég vil hvetja ráðherrann til að það mikilvæga verkefni líti dagsins ljós hið allra fyrsta, ekki síst í ljósi þeirrar vandmeðförnu stöðu (Forseti hringir.) sem nú er í alþjóðamálum.