145. löggjafarþing — 41. fundur,  26. nóv. 2015.

fangelsismál.

[10:58]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegur forseti. Ég þakka svarið. En er þá hæstv. ráðherra sammála mér um að það þurfi að skoða úrræði eins og Vernd fyrir norðan líka? Ég get jafnvel séð fyrir mér að ef maður er með fanga sem kemur þess vegna frá Ísafirði geti verið ódýrara að búa til sérstakt úrræði, Verndarúrræði, fyrir einn fanga en að láta hann sitja í öryggisfangelsi áfram af því að hann ákveður kannski að hann vilji frekar vera nálægt fjölskyldu sinni en að fara suður.

Síðan hef ég tekið eftir öðru þegar ég hef verið að kynna mér þessi mál. Mér finnst mikill skortur á sálfræðiþjónustu. Ég veit ekki hversu margir félagsfræðingar vinna hjá Fangelsismálastofnun. Í Danmörku hefur hver fangi í rauninni ráðgjafa, um leið og hann kemur inn er haldið utan um hans mál, hvert hann stefnir, hvað hann vill gera og hvert hann vill fara. Mér finnst þetta skorta hér. Mér þætti vænt um að heyra hvort hæstv. ráðherra sé ekki (Forseti hringir.) sammála mér um að sálfræðiþjónusta og aukin þvílík úrræði væru af hinu góða.