145. löggjafarþing — 41. fundur,  26. nóv. 2015.

fjárveitingar til lögreglu.

[11:02]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Ekki hefur verið tekin nein ákvörðun um það á þessu stigi hvernig á að fara með þetta viðbótarfé til lögreglunnar. Það er líka alveg ljóst að til þess að ná utan um þau verkefni sem á lögreglunni hvíla — og má ég kannski orða það líka þannig, þær skuldbindingar sem á henni hvíla — þá þarf meira fé en þessar 400 milljónir. Þær eru hins vegar mjög mikilvægar á þessum tímapunkti til þess að efla löggæsluna. Ég treysti mér ekki til að standa hér og staðfesta að þessar 400 milljónir muni á engan hátt þurfa að nota að einhverju leyti til að mæta halla sem til er kominn vegna verkefna sem lögreglan hefur þurft að sinna. Ég treysti mér ekki til þess að ganga svo langt að segja hér í þessum stól í óundirbúnum fyrirspurnatíma hvernig eigi að ráðstafa fjármununum eða hvert þeir eigi ekki að fara með svo afgerandi hætti. Það tel ég að væri óskynsamlegt af mér að gera og það ætla ég ekki að gera.

Hitt er annað mál að það er mín skoðun að nauðsynlegt sé að settir verði auknir fjármunir í landamæravörslu, í ferðamennsku, t.d. í kjördæmi hv. þingmanns eru aðallandamæri Íslands við útlönd og það er ljóst að þar þarf að efla á næstunni. Í ljósi þeirrar umræðu sem hefur verið hér bara í fyrirspurnatíma í dag held ég að það blasi við öllum mönnum að verkefnum þar fer síst fækkandi, þannig að það er afar mikilvægt að viðbótarfjármunir sem fara til löggæslunnar fari til tiltekinna verkefna. Lengra mun ég ekki ganga í þessum fyrirspurnatíma í dag.