145. löggjafarþing — 41. fundur,  26. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[11:12]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Þetta mál snýr ekki að fjárframlögum til þróunarsamvinnu, það vita allir sem vilja vita. Það er hins vegar sjálfsagt að við ræðum þau mál. Við erum með tvenns konar framlög, annars vegar til þeirra landa sem kölluð eru þróunarríki og síðan setjum við gríðarlega fjármuni í þróunaraðstoð til ESB. Ég hef beitt mér fyrir því og ég vona að hv. stjórnarandstaða styðji mig og okkur í því að þeir fjármunir verði veittir til þeirra sem þurfa meira á því að halda. Þar eru gríðarlegir fjármunir sem teljast ekki í prósentureikningum á þróunarframlögum Íslands.

Hér er hins vegar um að ræða augljóst hagræði og ég vonast til þess að það muni nýtast vel því að það er okkar verkefni að nýta fjármunina sem allra best. Það er enginn vafi á því og það sér hver maður að þarna (Forseti hringir.) eru mikil tækifæri og við skulum fylgja því eftir að þau verði nýtt.