145. löggjafarþing — 41. fundur,  26. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[11:24]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég verð að taka undir með síðasta ræðumanni um þörfina sem eykst enn frekar en orðið er. Það er mikilvægt fyrir sjálfsmynd þessa málaflokks að hann fái að standa stakur, faglegur, sem öflug fagstofnun eins og verið hefur. Það hefur sýnt sig. Það er mikilvægt að við tökum mark á Ríkisendurskoðun sem varar við þessu fyrirkomulagi. Hún hefur talað um ógagnsæi ráðuneytisins og nefnt dæmi um friðargæsluna og skóla Sameinuðu þjóðanna. Það er talað um úttektir og eftirlit sem hefur verið með miklum sóma og ekki hefur verið sýnt fram á að verði gert með sambærilegum hætti.

Jónína Einarsdóttir prófessor hefur varað við þessu sem og margir fleiri. Rauði krossinn hefur gert ítarlegar athugasemdir við frumvarpið sem ráðherra kýs að hlusta ekki á, að þetta sé ekki besta lausnin og það ákváðu sex eða sjö ráðherrar á undan þeim sem nú situr. Meira að segja samflokksmenn hans töldu þetta ekki bestu lausnina. Fjárlaganefnd hefur í umsögn um frumvarp um ríkisendurskoðanda sagt að það sé mikilvægt að stofnanir setji sér (Forseti hringir.) „árlega mælanleg markmið til að meta árangur og gæði starfseminnar“. Það hefur Þróunarsamvinnustofnun svo sannarlega gert — en ekki utanríkisráðuneytið.