145. löggjafarþing — 41. fundur,  26. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[11:25]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Eins og fram hefur komið, bæði hjá hæstv. utanríkisráðherra og hv. varaformanni fjárlaganefndar, er hér um að ræða hagræðingu, eflingu á starfi og betri nýtingu á mannafla. Þetta eru sömu rök og við urðum vör við hjá síðustu ríkisstjórn á síðasta kjörtímabili, hún notaði þau við þær sameiningar sem þá gengu stundum í gegn. Ég man ekki eftir að lætin hafi verið önnur eins og nú.

Það er ekki hægt að ræða þetta mál án þess að minnast aðeins á þann tvískinnung sem er í málflutningi hv. þingmanna stjórnarandstöðunnar ef litið er til síðasta kjörtímabils. Líf ríkisstjórnarinnar á síðasta kjörtímabili hékk á bláþræði út af Þróunarsamvinnustofnun. (Gripið fram í.) Hv. þm. Össur Skarphéðinsson lýsir því ágætlega í bók sinni hvernig hann lagði líf ríkisstjórnarinnar að veði þegar hæstv. þáverandi ráðherrar, Steingrímur J. Sigfússon og Jóhanna Sigurðardóttir, og þáverandi fjármálaráðherra, Oddný Harðardóttir, ætluðu að skera mikið niður í Þróunarsamvinnustofnun. Í bók sinni lýsir hann því síðan (Forseti hringir.) hvernig hann, eins og hann orðar það, sat eins og kórdrengur, brosti og sagði ekki orð, hann hafði sitt í gegn.

Þetta var nú öll áherslan á þennan málaflokk hjá síðustu ríkisstjórn, virðulegur forseti. Svo er komið með þennan tvískinnung hingað í þessum málum. Þetta er alveg óþolandi málflutningur. [Kliður í þingsal.]