145. löggjafarþing — 41. fundur,  26. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[11:28]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Álitamálin sem voru uppi í síðustu ríkisstjórn á árunum 2012–2013 voru hversu hratt við gætum aukið þróunaraðstoð, hversu hratt við réðum við að hækka hlutfallið af vergri landsframleiðslu. Það var fullkomin samstaða um að gera það og þingið tók undir þannig að ekkert geta verið meiri öfugmæli en þau sem komu hér út úr formanni fimmtu herdeildar stjórnarliðsins, hv. þm. Jóni Gunnarssyni.

Við hv. þm. Þorstein Sæmundsson vil ég segja að það að bera það á borð í þessari umræðu að í því hafi verið fólgin atkvæðakaup af hálfu síðustu ríkisstjórnar að auka framlög til þróunaraðstoðar um leið og fór að hilla undir jöfnuð í ríkisfjármálum er nú frekar ódýrt, eða heldur hv. þingmaður að fátækt fólk í Afríku hafi atkvæðisrétt á Íslandi? Mér finnst þessi málflutningur hv. þingmanna Þorsteins Sæmundssonar og Jóns Gunnarssonar fara enn neðar með umræður um þennan málaflokk en frammistaða þeirra eigin ríkisstjórnar og er þá mikið sagt. Það er ekki sæmandi að ræða þessi viðkvæmu mál með þessum hætti.