145. löggjafarþing — 41. fundur,  26. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[11:35]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Af því að mönnum finnst gaman að rifja upp fortíðina og tala um að gerðar hafi verið óraunhæfar áætlanir þá er það nú svo að sú áætlun sem ég vísaði til áðan var samþykkt m.a. af hæstv. núverandi fjármálaráðherra, Bjarna Benediktssyni, hæstv. núverandi mennta- og menningarmálaráðherra Illuga Gunnarssyni, hv. þingflokksformanni Sjálfstæðisflokksins, Ragnheiði Ríkharðsdóttur, og raunar af öllum þingmönnum allra flokka á þeim tíma nema einum, af því að fólk var tilbúið að forgangsraða þessum málaflokki, af því að hv. þingmenn töldu það skyldu sína þrátt fyrir að illa áraði að forgangsraða í þágu þessa málaflokks. Það er það sem mér finnst að við ættum að vera að ræða í dag, hvernig við forgangsröðum og hvort ekki sé virkilega unnt að setja í forgang þennan málaflokk sem snýst um skyldu okkar sem efnahagsríkis gagnvart ríkjum sem skipa sér í hóp 20 fátækustu ríkja heims og hverjar skyldur okkar eru við þau. (Forseti hringir.)

Ég ætla að hrósa hv. þingmönnum þáverandi stjórnarandstöðu, núverandi hæstv. ráðherrum og þingmönnum stjórnarflokkanna, fyrir hvernig þau greiddu atkvæði á þeim tíma (Forseti hringir.) því að þau sýndu þá að þau voru reiðubúin að hefja sig upp yfir átök í innanlandsmálum vegna sérstöðu þessa málaflokks.