145. löggjafarþing — 41. fundur,  26. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[11:44]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Ég held að umræðan sem er hér í þingsal endurspegli hvaða afleiðingar það hefur að setja mál fram með þeim hætti sem hæstv. ráðherra gerir í svo viðkvæmum málaflokki sem raun ber vitni. Við höfum áður talað um það ítrekað í umræðunni hversu viðkvæmur málaflokkurinn sé og hversu dýrmætt og mikilvægt það sé að því leyti að freista þess að ná þverpólitískri samstöðu í málinu. Það hafa aðrir utanríkisráðherrar gert hingað til. Þessi málaflokkur hefur verið þess eðlis. Hann er partur af sjálfsvirðingu og sjálfsmynd okkar Íslendinga. Þess vegna þarf að ganga varlega um hann. Þess vegna á utanríkisráðherra að láta utanríkismálanefnd í friði á næstu fundum. Ég treysti því að hann muni gera það og að stjórnarþingmenn muni hjálpa okkur í því að það sé algerlega skýrt að hann fari ekki fram með einhvers konar þvergirðingsvilja sinn gagnvart vinnunni í nefndinni og vinnan í nefndinni (Forseti hringir.) leiði af sér þá samstöðu sem málaflokkurinn verðskuldar.

(Forseti hringir.) Svo vil ég segja að þrátt fyrir allar tölur um krónutöluhækkanir er það ekki í samræmi við samþykkta þróunarsamvinnuáætlun.