145. löggjafarþing — 41. fundur,  26. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[11:47]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Málflutningurinn í þessum atkvæðagreiðslum er alveg hreint með ólíkindum. Hér er talað eins og við Íslendingar séum að leggja til að við greiðum ekki krónu meira í þróunaraðstoð. Hvernig væri fyrir þingmenn (Gripið fram í.) að koma sér að efninu sem þetta frumvarp fjallar um? Það fjallar um flutning einnar stofnunar inn í ráðuneyti. Það er allt og sumt, virðulegi forseti. Svo er farið fram með mikið tilfinningaklám og sagt að við séum að leggja niður þróunarsamvinnu. Ég hef bara aldrei heyrt annað eins en svona er hægt að þvæla máli fram og til baka.

Hv. þm. Jón Gunnarsson getur ekki svarað fyrir sig í þessum ræðustól vegna þess að hann er búinn með sínar tvær atkvæðaskýringar, en hér var talað um að hann hefði verið með skæting. Þá er það mat stjórnarandstöðunnar, a.m.k. Samfylkingarinnar og Vinstri grænna, að það sé skætingur sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson (Forseti hringir.) upplýsti um í bók sinni. Það er afar viðkvæmt í þinginu þegar lesið er úr bókinni um hvernig kaupin gerðust á eyrinni á síðasta kjörtímabili. (Gripið fram í.)