145. löggjafarþing — 41. fundur,  26. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[11:50]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Orð stjórnarmeirihlutans í þessum atkvæðaskýringum sýna bersýnilega hversu lítið hann hefur kynnt sér þetta mál. Það er verið að tala um að hérna sé um fjárhagslega hagræðingu að ræða en svo er ekki samkvæmt frumvarpinu. Hér er talað um að færa litla stofnun yfir í lítið ráðuneyti. Tíu manna stofnun er ekki sérlega lítil stofnun á íslenskan mælikvarða þannig að ég skil ekki alveg málið með það. Fyrir lítið land er það bara fínt.

Síðan er líka spurningin um það um hvað málið snýst. Það á að setja undir einn hatt tvær tegundir af þróunarsamvinnu í raun og veru og þá er bara spurning hvort við viljum gera það. Það er til skammar hvernig meiri hlutinn hefur talað í þessu máli. Það er búið að fara efnislega rangt með það sem komið hefur fram í umræðunum hérna og það er með öllu óviðeigandi hvernig hæstv. ráðherra hefur komið fram við þingið.