145. löggjafarþing — 41. fundur,  26. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[11:54]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Um áratugaskeið hafa stjórnmálaflokkarnir á Íslandi og Alþingi Íslendinga borið gæfu til að standa saman að því verðuga verkefni sem þróunarsamvinna Íslands við fátæk lönd er. Þetta hefur breyst með því að hæstv. utanríkisráðherra hefur vitandi vits farið fram með mál sem snýst um smáatriði í sjálfu sér, skipulag, í andstöðu við fjölmarga stjórnmálaflokka á Alþingi og fjölmarga þingmenn og neitað algerlega að mæta nokkrum öðrum sjónarmiðum í þessu einfalda skipulagsmáli. Afleiðingin af því að skapa þá sundrungu er sú umræða sem hér hefur farið fram á þessum morgni og er Alþingi, stjórnmálunum og ríkisstjórninni sannarlega hvorki til virðingar né vegsauka.