145. löggjafarþing — 41. fundur,  26. nóv. 2015.

opinber fjármál.

148. mál
[12:33]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Að sjálfsögðu óskar enginn eftir því að báknið blási út sérstaklega af þessum ástæðum. Ég held að við eigum að vera raunsæ og horfa á veruleikann eins og hann er, eins og hann hefur birst mér á umliðnum árum. Ég tel mig þekkja sæmilega til þess hvernig þetta ástand var, a.m.k. á fjögurra, fimm ára tímabili. Þá voru og eru mörg fagráðuneytin allt of veik á þessu sviði hvað varðar fjármálastjórn, undirbúning undir fjárlagatillögur sínar o.s.frv. Fjármálaráðuneytið hefur að mínu mati sjálft orðið að vinna of mikið af þeirri vinnu sem ætti að vera hægt að vinna í fagráðuneytunum, jafnvel skrifa texta í greinargerð með fjárlagafrumvarpi fyrir einstök ráðuneyti. Það er í fyrsta lagi að mínu mati löngu brýnt verkefni að efla fagráðuneytin á þessu sviði. Með sameiningu þeirra og stækkun og fækkun ætti það að vera viðbótarröksemd. Á árum áður var í litlu ráðuneytunum kannski hálft eða eitt stöðugildi og manneskjur urðu jafnvel að bæta því á sig með öðrum krefjandi verkefnum í ráðuneytunum að vera einhvers konar fjármálasérfræðingar þeirra.

Ég sé ekki eftir því þó að einhverjir fjármunir fari í það og það verði varanleg viðbót að styrkja ráðuneytin í þessum efnum náist meginmarkmiðin um traustari ríkisbúskap, meiri aga og samþættari hagstjórn, þar á meðal samþættingu fjármála hins opinbera í gegnum samstarf ríkis og sveitarfélaga. Þar er náttúrlega þegar búið að vinna mikið verk með setningu fjármálareglnanna á sínum tíma, 2011. Ég sakna þess að vísu að sá hagstjórnarsamningur sem átti samkvæmt tillögum samráðsnefndarinnar að fylgja í kjölfarið skuli aldrei hafa verið gerður, en við skulum vona að í kjölfar þessa komist þetta í traust horf og þá á þjóðhagslegi ávinningurinn af þessu að geta orðið svo margfaldur, með traustari hagstjórn og betri umgjörð um hin opinberu fjármál í heild sinni, að einhver viðbótarrekstrarkostnaður er góð fjárfesting. (Forseti hringir.) Ég endurtek því að mér finnst fyrst og fremst eiga að líta á það sem fjárfestingu.