145. löggjafarþing — 41. fundur,  26. nóv. 2015.

opinber fjármál.

148. mál
[13:31]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Herra forseti. Ég fagna því mjög að við séum að ræða í 2. umr. frumvarp til laga um opinber fjármál. Mér finnst þetta vera hið besta mál. Það hefur verið góð vinna og samvinna í fjárlaganefnd um þetta mál, þvert á flokka. Frumvarpið á sér auðvitað sögu sem nær nokkuð aftur í tímann, það var byrjað að vinna í því fljótlega eftir hrunið og það hefur verið á forræði nokkurra fjármálaráðherra. Ég held að þetta verði framfaraskref, muni auka aga og festu í ríkisfjármálunum, bæta áætlanagerð og langtímahugsun sem er gríðarlega mikilvæg, og auka kröfur um stefnumótun af hálfu ráðherra.

Maður spyr sig stundum hvort það þurfi yfir höfuð ný lög því að við erum svo sem með lög um fjárreiður ríkisins sem eru alveg ágæt, en við fylgjum þeim ekki. Og ættu vinnubrögð sem byggja á langtímahugsun og öðru slíku ekki bara að vera eðlileg vinnubrögð í dag? Við í minni hlutanum höfum til dæmis gagnrýnt það að okkur finnst ekki farið eftir lögum um fjárreiður ríkisins í fjáraukalögum því þar eru ekki alltaf ófyrirséðir liðir. En það er verið að gera það miklar breytingar að mjög nauðsynlegt er, að ég held, að koma núna með ný heildarlög sem ná yfir marga eða flesta þætti og sérstaklega er ánægjulegt að það sé gert í sátt, nokkurn veginn. Þetta er eitthvað sem allir eru sammála um. Ef við förum ekki öll saman í það verkefni að auka aga og festu og gera hlutina betur þá skiptir ekki öllu máli hvernig lögin eru. Mér hefur fundist undirbúningur af hálfu fjármála- og efnahagsráðuneytisins mjög góður, mikil þekking á þessu frumvarpi, mikil vinna í gangi í embættismannakerfinu og stjórnsýslunni sem skiptir gríðarlega miklu máli því að þetta snýr ekki síst að stjórnsýslunni, fjársýslunni líka, en ekki bara að Alþingi og kannski fjárlaganefnd.

Það má kannski hafa áhyggjur af því að samkvæmt þessu frumvarpi á að gera fjármálastefnu til fimm ára og svo fjármálaáætlanir á hverju vori til þriggja ára. Við erum núna að fást við fjárlagafrumvarp fyrir árið 2016. Það er eiginlega varla búið að leggja það fram þegar farið er að vinna í breytingartillögum sem eru eiginlega alltaf allnokkrar fyrir 2. umr. Ef við getum ekki einu sinni planað nokkra mánuði fram í tímann spyr maður sig hvort við getum planað þrjú ár fram í tímann eins og við þurfum í raun að gera. Það kallar á allt aðra hugsun, önnur vinnubrögð, og það er það sem mér finnst mest ástæða til að óttast að muni ekki ganga. Þess vegna er svo mikilvægt að við tölum fyrir þessu, gerum okkur grein fyrir að það verða ýmsir vankantar sem við þurfum að sníða af, þetta mun örugglega ekki ganga snurðulaust fyrir sig, en við gefumst ekkert upp heldur höldum áfram. Þetta er ekki þannig að um leið og þetta frumvarp verður að lögum séum við komin í fremstu röð og getum farið að líkja okkur við Svía eins og við viljum gjarnan gera þegar kemur að fjárlagagerð og opinberum fjármálum. Þetta tekur tíma og við þurfum að hafa þolinmæði í það og ekki gefast upp. Það er það sem ég vildi sagt hafa.

Það eru einstaka greinar sem við áttum meira við en aðrar. Það var kannski helst 7. gr. um fjármálareglurnar sem ekki var sátt um. Ég er mjög hlynnt fjármálareglunum. Það var rætt um útgjaldareglu og hv. formaður fjárlaganefndar ræddi í sinni ræðu að hún hefði viljað sjá útgjaldareglu. Ég hef skilning á því sjónarmiði og mig minnir að það hafi verið í umsögn Samtaka atvinnulífsins þar sem færð voru ágætisrök fyrir því að mikilvægt væri að hafa slíka reglu. En með því að stjórnvöldum hverju sinni sé gert skylt að setja útgjaldareglu inn í sína áætlun ætti það að duga. Mér finnst reglan um skuldahlutfall mikilvægari. Ég er almennt hlynnt þessum reglum. Sveitarfélögin hafa líka sett sér reglur og þær hafa reynst vel.

Við ræddum líka um 13. gr., um fjármálaráð, og eyddum talsverðum tíma í það. Það finnst mér vera mjög mikilvæg grein og mikilvægt að vel takist til. Það er auðvitað þannig að ef þessi lög eru brotin er enginn sem fer í fangelsi, þetta eru í rauninni að einhverju leyti bara verklagsreglur sem þingið og stjórnvöld setja sjálfum sér. Fjármálaráðið á að vera óháð ráð sem í sitja þrír aðilar með þekkingu á opinberum fjármálum sem eiga að leggja mat á fjármálastefnu og fjármálaáætlun og ráðið á að birta athugasemdir sínar opinberlega.

Mjög misjafnt er eftir löndum hvernig fjármálaráð eru uppbyggð. Við höfum skoðað það og mér fannst við í nefndinni bæta þessa grein nokkuð. Við lögðum til dæmis til að formaður væri skipaður til fimm ára en hinir til þriggja þannig að allir hættu ekki á sama tíma og eins að þeir sem sætu í fjármálaráðinu sætu þar ekki oftar en tvisvar í röð. Ég hefði jafnvel viljað styrkja þessa grein enn frekar, það á enn eftir að koma í ljós hvernig fjármálaráðið mun vinna. Verða allir í fjármálaráði í hlutastarfi? Verður formaðurinn fastráðinn? Hversu víðtækt er hlutverk ráðsins? Miðað við þau fjármálaráð sem við höfum skoðað er heldur lítið í raun sem ætlast er til af því. Við skoðuðum sænska fjármálaráðið. Það þykir lítið á alþjóðlegan mælikvarða en það gefur álit sitt á ríkisfjármálareglunum, fjármálastöðugleika, vinnumarkaðsaðgerðum, skattbreytingum, fjárfestingarstefnu hins opinbera, skuldastýringu og sjálfbærni opinberra fjármála. Ég vonast til þess að eftir því sem fram vindur munum við styrkja fjármálaráðið og sjá að mikilvægt sé að það geti starfað eðlilega og jafnvel útvíkkað verkefnin sem það hefur.

Hér segir í punktum, af því að fjárlaganefndin fór til Svíþjóðar og kynnti sér málin þar sem mér fannst afar gott, að því sé haldið fram að ekki sé áþreifanlegur árangur af því að hafa ráðið en skýrslur þess nýtist mikið í almennri umræðu og á þinginu um efnahags- og ríkisfjármálin. Ég treysti því að fjármálaráð verði sterkara eftir því sem fram líða stundir. Það er ekki tekið fram hvar það verði vistað. Mér þykir mikilvægt að það sé ekki vistað í fjármálaráðuneytinu. Það þarf að tryggja því algert sjálfstæði. Kannski væri sniðugt að hafa það í húsnæði Ríkisendurskoðunar eða einhverjum af stofnunum Alþingis. Þetta er að minnsta kosti góð byrjun mundi ég segja og ég er ánægð með að við náðum að bæta greinina aðeins.

Það sem við fórum ekki ítarlega í og þarfnast í raun umræðu eða jafnvel verkáætlunar er hvernig við förum með þessi mál, fjárlagafrumvarp og annað, í þinglegri meðferð. Mér finnst það ekki alveg vera á hreinu. Við höfum tímann fyrir okkur í því og eflaust þarf að breyta lögum um þingsköp. Ég hef ekki enn áttað mig á því hvernig þingmenn gera breytingartillögur. Í Svíþjóð er það þannig að minni hlutinn eða stjórnarandstaðan leggur fram sitt eigið fjárlagafrumvarp, hver flokkur getur lagt fram sitt eigið fjárlagafrumvarp sem fer í atkvæðagreiðslu. Við höfum að sjálfsögðu ekki aðstöðu til þess. Ég sé ekki að í nánustu framtíð muni þingið verða eflt svo mikið að flokkar hafi aðstöðu til að semja eigin frumvörp. Það er spurning með hvaða hætti farið er með breytingartillögur. Einnig finnst mér mjög mikilvægt að fagnefndir eða nefndir þingsins, ekki bara fjárlaganefnd, komi að fjárlagafrumvarpinu. Við getum hugsað það sem svo að allsherjar- og menntamálanefnd taki svolítið utan um þá málaflokka sem falla undir hana eins og framhaldsskólana og háskólastigið og annað. Það er mín reynsla í fjárlaganefndinni að við séum einhvern veginn með yfirborðið og mér finnst oft vanta að fagnefndirnar kafi dýpra í málin. Þannig er það gert í Svíþjóð og mér finnst það til eftirbreytni. Ég vona að það verði raunin.

Við erum með ítarlegt nefndarálit sem mér finnst segja það sem segja þarf. Ég vil enn og aftur þakka fyrir samvinnuna. Það kom örlítið babb í bátinn þegar málið var tekið út í sumar. Það var ekki gert í sátt við okkur í minni hlutanum. Við tókum málið aftur upp í haust og höfum unnið í því síðan. Ég verð að segja að þetta hefur verið afar góð og ánægjuleg samvinna. Svona finnst mér að við eigum að vinna mál hér í þinginu. Í rauninni hefur farið svo mikil vinna fram í nefndinni að umræðan á þinginu þarf ekki að verða yfirþyrmandi mikil þar sem hver endurtekur það sem allir hinir eru búnir að segja eins og mér finnst stundum vera tilfellið hérna. Þannig að mér finnst þetta vera vinnubrögð til fyrirmyndar.

Áður en ég lýk máli mínu vil ég benda á að eitt af því sem við þurfum að gera er að vera fyrr á ferðinni með ýmislegt. Við berum okkur saman við Svíþjóð og ég held að það sé gott að horfa þangað og leita eftir ráðum og skoða hvernig hlutirnir eru gerðir þar og læra af því, en þar liggur til dæmis skýrsla ríkisendurskoðunar fyrir samhliða ríkisreikningi. Ársreikningar stofnana og ársskýrslur ráðherra liggja fyrir tveimur til þremur mánuðum fyrr en hérlendis. Svíar eru í raun fyrr í ferlinu. Við þurfum að vera það líka ef vel á að vera.