145. löggjafarþing — 41. fundur,  26. nóv. 2015.

opinber fjármál.

148. mál
[14:29]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Við ræðum frumvarp til laga um opinber fjármál og nefndarálit meiri hluta sem hv. þm. Vigdís Hauksdóttir fór yfir og álit minni hluta fjárlaganefndar sem hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir fór yfir.

Málið hefur verið nokkurn tíma í meðförum þingsins og verið á borði tveggja ríkisstjórna sem er vel. Þetta er stórt, viðamikið mál og fjölmargir aðilar, fulltrúar stofnana og ráðuneyta hafa komið að málinu í allri vinnslu þess og það ætti að vera til þess fallið að um það megi ná samstöðu, bæði í nefndinni og meðal allra aðila sem koma að málinu, ekki síst meðal hv. þingmanna.

Það eru margar jákvæðar hliðar á þessu máli. Eins og gjarnan er í umræðu um opinber fjármál er kallað eftir auknum aga og kjörnir fulltrúar, hv. þingmenn, kalla gjarnan eftir því. Það er auðvitað hlutverk hv. þingmanna í fjárlaganefnd að leggja sig í líma við að ná fram aga og fara fram af nákvæmni í áætlanagerð og að stofnanir fylgi áætlunum og haldi sig við þau útgjöld sem lagt er upp með og þann ramma í fjárlögum sem mótar þau.

Agi, gagnsæi, aðhald, langtímahugsun og forgangsröðun í ríkisrekstri á þannig alltaf við og við köllum gjarnan eftir enda er það hlutverk okkar. Við eigum hins vegar ekki einvörðungu að treysta á það að einstaklingarnir sem skipa þingsætin hverju sinni vinni að því heldur þarf ramminn, verkferlið, að styðja við slík vinnubrögð. Þess vegna tel ég að frumvarpið, verði það að lögum, sé til bóta að þessu leytinu, það gefi þann ramma og stuðning við alla vinnu við fjárlagagerð og auki aga og festu sem við köllum svo oft eftir.

Í þessu samhengi ætla ég að ræða frumvarpið og ekki síður mikilvægi þess varðandi hagstjórn á Íslandi og viðleitni til bættrar hagstjórnar. Helstu efnahagsmarkmið ríkisstjórnar hverju sinni, ekki bara hérlendis heldur á það við um hagstjórn allra ríkja, eru að stefnt er að þremur markmiðum. Þau eru full atvinna, sjálfbær og stöðugur framleiðsluvöxtur sem við tölum um sem hagvöxt og svo stöðugt verðlag. Það er þessi stöðugleiki sem er svo eftirsóknarverður.

Þessi markmið eru auðvitað samofin en markmið um fulla atvinnu merkir að allir hafi tök á að draga björg í bú og koma þaki yfir höfuðið og skapa fjölskyldu sinni öryggi. Vinna er því grundvallaratriði. Hverju hagkerfi er nauðsynlegt að fullnýta framleiðsluþættina með sjálfbærum hætti og þar er vinnuaflið afar mikilvægur þáttur. Í annan stað er það jafn hagvöxtur sem myndaður er af hagkvæmri nýtingu mannauðs, sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda og skilvirkri nýtingu fjármagnsins sem við bindum í þeim framleiðslutækjum sem eru nauðsynleg allri framleiðslu og nýtast best með viðeigandi tækni og skipulagi þannig að sem mest framleiðni náist og þau skilyrði skapist að æskileg sjálfbærni sé til staðar.

Ef við berum gæfu til að fullnýta vinnuaflið og nýta náttúruauðlindirnar með sjálfbærum hætti þannig að jafn hagvöxtur viðhaldi stöðugum og bættum lífskjörum er ekki bara nauðsynlegt heldur og auknar líkur á því að þriðja æskilega markmiðið náist sem er stöðugt verðlag og að hagvöxturinn byggist á raunaukningu í framleiðslu, oft nefnt magnaukning, en ekki verðdrifnum vexti. Það er þessi blessaða verðbólga sem við erum svo gjarnan að berjast við í íslenskri hagstjórn og sveiflurnar í okkar hagkerfi. Þannig höfum við á stundum sætt okkur við veikara gengi, að einhverju marki í skiptum fyrir markmið um fulla atvinnu.

Hagstjórnarmarkmiðin sem ég nefni hér til áréttingar eru því full atvinna, hagvöxtur og stöðugleiki.

Þær miklu sveiflur sem við höfum gjarnan búið við koma hugsanlega til af því að við erum háð utanríkisviðskiptum. Bæði er að við reiðum okkur á útflutning og verðmæti sköpuð til útflutnings en jafnframt erum við mjög háð innflutningi. Það er því í senn mikilvægt fyrir okkur að fá sem hæst verð fyrir útflutningsafurðir okkar. Veik króna eða fallandi gengi, handstýrðar gengisfellingar eins og gjarnan var gripið til áður fyrr, hefur því komið sér vel í gegnum tíðina. En á móti kemur, þegar halda á uppi fullri atvinnu, að verðlag hækkar á innlendri framleiðslu og innfluttum aðföngum þannig að innflutt neysluvara hækkar í verði.

Slíkar efnahagssveiflur hafa áhrif á okkur öll og almenningur tekur þannig reglulega á sig skellinn og ráðstöfunartekjur minnka sem við reynum svo að kalla til baka í gegnum kjarasamninga með leiðréttingum og þá umfram þann framleiðnivöxt sem raunverulega getur staðið undir þeim hækkunum sem kjarasamningar fela í sér. Því er sjaldnast nema um skammtímakrónuhækkanir að ræða en ekki raunverulegar kjarabætur þegar allt kemur til alls.

Atvinnulífið líður fyrir slíkar sveiflur þar sem erfitt er að gera áætlanir. Launagjöld verða fyrirtækjum og stofnunum þungur baggi sem ómögulegt er að ráða við nema að velta þeim út í verðlagið. Það kemur svo niður á því að jöfn og viðeigandi fjárfesting haldist til að viðhalda raunvexti til framtíðar og framleiðslu og kemur óhjákvæmilega alltaf niður á lífskjörum og lífskjarabata komandi kynslóða og eðlilegri uppbyggingu fyrir afkomendur.

Mögulega er þetta skýringin á því að ungir Íslendingar í auknum mæli, og nú er ég að tala um stöðuna eins og hún er uppi í dag, freista gæfunnar erlendis. Ég tek það reyndar fram að ég er með getgátur út frá þessari stöðu, ég hef ekki lagst í nákvæmar rannsóknir í því efni. Ég velti því bara upp þar sem slíkar tölur um brottflutta Íslendinga liggja fyrir og fjölmiðlar og fleiri hafa rætt um. Sveiflur sem þessar og óstöðugleiki hamla fyrirtækjum að búa til sérhæfð og verðmæt störf. Það getur mögulega útskýrt þennan brottflutning að einhverju marki þannig að við erum að tapa þekkingu. Það er jafnframt erfitt fyrir atvinnulífið við þessar aðstæður að ná fram aukinni hagkvæmni og nýtingu mannauðs og framleiðslutækja sem er auðvitað alltaf eftirsóknarvert hagstjórnarmarkmið.

Út úr þessum vítahring höfum við aldrei almennilega komist og svo rammt kveður að þessu að fjármálakerfið treystir sér ekki út úr verðtryggðu lánakerfi heldur treystir á það og er með meira en helming eigna sinna í verðtryggðum útlánum til heimila. Það setur óbærilegar kvaðir á almenning sem situr uppi með reikninginn út ævina, seinkar sparnaði og eiginfjársöfnun til efri ára. Það birtist hugsanlega nú í því að æ fleiri eldri borgarar eru enn með skuldir þegar þeir fara á rýrar eftirlaunatekjur sem rétt duga fyrir grunnframfærslu og standa alls ekki undir því að greiða af lánum.

Ég ætla að taka það fram að ég hef ekki heldur í samhengi þessara hluta lagst í mjög nákvæmar rannsóknir á þessu sviði. Hins vegar eru til tölur um að ákveðinn hluti eldri borgara sé að kljást við þessa stöðu. Og það er staðreynd, hvort sem ég er að tala um brottflutta, eignalitla unga Íslendinga eða eldri borgara sem eru enn að kljást við skuldir þegar þeir fara á eftirlaun, að þær tölur liggja fyrir á Hagstofunni sem gefa til kynna að þannig sé staðan.

Þá er komið að enn einni hlið þessara mála sem er peningastefnan. Það hefur komið skýrt fram í umræðunni, m.a. hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni sem hélt hér síðustu ræðu, að það hefur verið kallað eftir samspili peningamálastefnu og fjármálastefnu og er komið inn á það í greinargerð með frumvarpinu. En hið verðtryggða fjármálakerfi dregur bitið úr vaxtatæki peningastefnunnar. Aðspurður sagði aðalhagfræðingur Seðlabankans á fundi hv. efnahags- og viðskiptanefndar og útskýrði það og staðfesti að með vaxtahækkunum væri markvisst verið að draga úr ráðstöfunartekjum heimilanna til þess að slá á eftirspurn og halda niðri verðbólgu, það væri meginmarkmið þeirra. Það er í sjálfu sér ekkert athugavert við það að segja það hreint út eins og það er en því miður er það svo að tækið bítur ekki sem skyldi vegna þess að aukningunni er velt inn í framtíðina og greiðslubyrðin þyngist ekki til muna til að bregðast við aðstæðunum sem eru uppi.

Nú eru bankar farnir að setja þak á óverðtryggð lán. Af hverju er það? Það er til þess að þau fari að hegða sér eins og verðtryggð lán. Það er ekki til að skerpa á biti peningastefnunnar. Nei. Hér er því miður enn ein birtingarmynd þessa vítahrings sem við verðum að komast út úr og sem birtist líka í því að Seðlabankinn sér sig knúinn til þess og kallar eftir því beinlínis og margoft að fjármálastefnan þurfi að vinna með peningastefnunni og öfugt.

Í þessu ljósi hagstjórnarmarkmiða er svo mikilvægt að skoða það frumvarp sem við ræðum hér, að við séum að taka skref í þá átt að peningastefnan geti tekið mið af ríkisfjármálastefnunni og róið í sömu átt og hún, að peningastefnunefnd sé ekki á bremsunni á sama tíma og stigið er á bensínið í ríkisfjármálastefnunni.

Það eru ekki bara fulltrúar Seðlabankans sem hafa kallað eftir þessu og talað í þessa veru sem styður þá umgjörð sem frumvarpið felur í sér. Það hefur atvinnulífið jafnframt gert og fleiri stofnanir, til að mynda Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sem var til aðstoðar og ráðgjafar í undirbúningsvinnu þessa máls. Flestir kalla því eftir þessu samspili tveggja póla í íslenskri hagstjórn.

Í ágætisgrein sem birt er á vef Viðskiptaráðs og ber yfirskriftina Ferð án fyrirheits kemur meðal annars fram að íslenskt efnahagslíf einkennist af miklum óstöðugleika. Þar er sýnt fram á sterka fylgni einkaneyslu og gengis krónunnar. Í samanburði 15 þróaðra iðnríkja eru bæði verðlags- og hagvaxtarsveiflur mestar hér. Hver er rót vandans? Rót vandans er ekki gengi krónunnar heldur hagstjórnin. Þar er jafnframt komið inn á mikilvægt mál tengt hagstjórn sem er framleiðni. Líkur eru leiddar að því að óstöðugleikinn, hinar ýktu sveiflur, standi aukinni framleiðni fyrir þrifum. En framleiðni er auðvitað algjört kjörhugtak þegar kemur að því að bæta lífskjör og nýta með sjálfbærum hætti ekki bara mannauðinn heldur einnig náttúruauðlindir okkar.

Í þessari athyglisverðu grein kemur fram enn ein vísbendingin um þær sveiflur sem við erum að kljást við og skilning á þeim áskorunum sem við stöndum frammi fyrir í þeirri viðleitni að bæta hagstjórn. Ef ég dreg efni greinarinnar saman þá kemur þar fram að verðlags- og hagvaxtarsveiflur hérlendis eru þær mestu í þróuðum iðnríkjum. Starfsfólki í innlendum greinum fjölgaði í aðdraganda fjármálakreppunnar á meðan útflutningsgreinar sátu eftir. Eftir veikingu krónunnar sem þá varð varð þróunin öfug sem bendir til þess að rót vandans liggi í hagstjórninni. Fjárfesting sveiflast samhliða breytingum á styrk krónunnar og nýtist verr eftir því sem sveiflurnar eru tíðari og meiri og gengisbreytingar krónunnar eru birtingarmynd óstöðugleikans frekar en orsök. Ef draga á úr efnahagslegum óstöðugleika þarf að ráðast að þessari grunnrót vandans sem er hagstjórnin.

Ég lít á frumvarpið sem við ræðum hér sem skref eða spor í þá átt. Í því felst að ráðist verður í aðgerðir á öllum þremur sviðum, í fjármálum hins opinbera eins og frumvarpið er viðleitni til, í peningastefnu og á vinnumarkaði.

Formaður fjárlaganefndar, hv. þm. Vigdís Hauksdóttir, fór vel yfir einstaka liði frumvarpsins og hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir fór jafnframt vel yfir þær greinar sem minni hlutinn gerir athugasemdir við. — Ég sé að tíminn er fljótur að fara þegar við ræðum hagstjórn. Það má nefna fyrst og fremst það svigrúm sem við lítum til að ríkisstjórn hafi hverju sinni til að bregðast við þeirri stöðu sem er uppi í efnahagslífinu. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon kom inn á að í þessu samhengi væri mikilvægt að samræmi væri á milli greinargerðar og þeirra skilyrða sem fram koma í 7. gr. Ég er hjartanlega sammála hv. þingmanni um það. Ég leyfi mér hins vegar að setja spurningarmerki við hvort ramminn sé of stífur eins og hv. þingmaður telur. Það má vel vera að skilyrðin eins og þau eru sett fram séu fullstíf. En þó getur ríkisstjórnin við vissar aðstæður tekið þau úr sambandi og komið inn með nýjar tillögur og leitað samþykkis þings fyrir breyttri áætlun og stefnu ef þær aðstæður bjóða upp á slíkt.

Svo er það hitt að keynesískar aðgerðir eiga það gjarnan til, þegar kemur að pólitík, að virka bara í aðra áttina, þ.e. að þegar dregur úr umsvifum eða upp kemur kreppa þá erum við tilbúin til að skuldsetja okkur og auka umsvifin í efnahagslífinu til að halda uppi fullri atvinnu og nýta þær auðlindir sem við höfum til að skapa og framleiða og viðhalda lífskjörum en í uppsveiflu og góðæri eigum við hins vegar mjög erfitt með að stíga á bremsuna. Núverandi ríkisstjórn verður að njóta sannmælis í því og við verðum alltaf að skoða þær aðstæður sem við komum frá.

Þetta er því mjög viðkvæmt jafnvægi og þröngt einstigi sem við erum að reyna að feta þessi árin. En alla jafna eigum við mjög erfitt með það á hinum pólitíska vettvangi að beita keynesískum aðferðum í góðæri og uppsveiflu. Þá kemur að því að tekjurnar í formi skatta og útgjöld stofnana og í tryggingakerfinu, samtryggingarkerfinu sem er okkur svo nauðsynlegt og okkar grunnstoð í að byggja upp réttlátt samfélag þar sem ríkir jöfnuður, virka sem sjálfvirk sveiflujöfnun á hagkerfið og vill það oft sem betur fer, leyfi ég mér að segja, virðulegi forseti, hjálpa okkur.

Þess vegna leyfi ég mér að segja að ég er ekki alveg tilbúinn til að taka undir það að settur sé of stífur rammi í frumvarpinu. Ég held að það sé til bóta að við förum inn í agað og reglusett umhverfi eins og lagt er upp með í frumvarpinu. Mér finnst mjög mikilvægt eins og komið hefur fram í ræðum hv. þingmanna að samstaða sé um þetta mál og ég heyri ekki annað af umræðunum en að um það sé samstaða og ég vonast til þess að við berum gæfu til að stíga þetta skref.