145. löggjafarþing — 41. fundur,  26. nóv. 2015.

opinber fjármál.

148. mál
[14:52]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Svandísi Svavarsdóttur fyrir spurningar hennar sem við eigum að fara yfir og spyrja okkur, vegna þess að það fylgir því aukinn kostnaður að taka þetta skref og ráðast í þær aðgerðir. Það þýðir auknar kröfur, faglegar kröfur, og augljóst að hér er verið að styrkja fagþáttinn í ráðuneytunum og stofnunum sem þurfa að kljást við breytta alþjóðlega reikningsskilastaðla og taka tillit til þeirrar faglegu umgjarðar sem lagt er upp með.

Ég tek undir með þeim hv. þingmönnum sem meta þetta sem fjárfestingu. Ég lít svo á að við séum að taka það jákvætt skref í að bæta og styrkja hagstjórn okkar að um hreinlega fjárfestingu sé að ræða.

Þá nefnir hv. þingmaður aðkomu Alþingis og vinnslu Alþingis. Ég ætla að leyfa mér að taka undir með hv. þingmanni að skoða þarf betur að styrkja og bæta faglega þáttinn. Nú veit ég að við erum með mjög hæfa, vel menntaða og faglega nefndarritara sem vinna mjög vel með nefndinni á öllum sviðum á nefndasviði, en við eigum að skoða og gaumgæfa hvort hér þurfi að bregðast við og styrkja faglega þáttinn á Alþingi sömuleiðis. Það hljóta að eiga alveg sömu rök við.